Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu þar sem rýnt var í stöðu þeirra 2.310 nemenda sem hófu háskólanám á Íslandi árið 2014.
Þremur árum eftir upphaf náms voru 38,1 prósent nemenda brautskráðir, 37,5 prósent enn í námi, 24,2 prósent nemenda brottfallnir og 0,2 prósent brautskráðir úr öðru námi, til dæmis tveggja ára diplómanámi.
Hlutfall kvenna sem brautskráðist á tilætluðum tíma er hærra en hjá körlum, 40,4 prósent kvenna brautskráðist á þremur árum en 35,5 prósent karla. Bæði hlutföllin eru hærri en hjá nýnemum haustsins 2011 en tæp 34 prósent þeirra hafði útskrifast þremur árum eftir upphaf náms.
Einn af hverjum fimm nýnemum hætti í námi á fyrsta námsári samkvæmt tölum Hagstofu. 79 prósent héldu áfram í náminu en 0,7 prósent höfðu skipt yfir í annað háskólanám.
Eftir sex ár í námi hafa 68,5 prósent nemenda brautskrást, 21,6 prósent voru brottfallnir, 9,5 prósent enn í námi og 0,4 prósent nemenda hafði brautskrást úr öðru háskólanámi.