Fréttastofa hefur ítarlega fjallað um mál Hrafnhildar Lilju Georgsdóttir sem myrt var í Dóminíska lýðveldinu fyrir fjórtán árum síðan. Móðir Hrafnhildar steig fram í viðtali og sagði íslensk stjórnvöld hafa brugðist í málinu með því að beita sér aldrei fyrir rannsókn þess.
Í gær greindi embætti ríkislögreglustjóra frá því að í tilefni af umfjöllun um málið ætli lögreglan á Íslandi að fara aftur yfir morðmál Hrafnhildar Lilju og óska eftir gögnum og svörum frá lögreglunni í Dóminíska lýðveldinu.
Utanríkisráðuneytinu ekki heimilt að hafa afskipti
Upplýsingafulltrúi Utanríkisráðuneytisins segir að við þær aðstæður þegar grunur er um að eitthvað saknæmt hafi komið fyrir íslenskan ríkisborgara í útlöndum þá sé rannsókn og meðferð yfir slíkum málum á forræði lögregluyfirvalda í viðkomandi landi.
„En utanríkisráðuneytinu er ekki heimilt að hafa afskipti af meðferð slíkra lögreglumála. Það sem utanríkisþjónustan kannski fyrst og fremst gerir í slíkum tilvikum er að leiðbeina aðstandendum og aðstoða þá eins og kostur er við að afla upplýsinga um framgang málanna hjá erlendum lögregluyfirvöldum,“ sagði Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi.
Ráðuneyti getur veitt almennar upplýsingar, vísað á lögmenn og sérfræðinga ef tilefni er til, en almennt geti utanríkisráðuneytið ekki haft nein bein afskipti.
Utanríkisráðherra hefur ekki afskipti
En utanríkisráðherra, getur ráðherra ekki pólitískt beitt sér í svona máli?
„Almennt séð hefur utanríkisráðherra ekki pólitísk afskipti af einstaka málum, sérstaklega ekki ef þau eru til meðferðar hjá lögregluyfirvöldum í viðkomandi ríki. Sakamálarannsóknir hafa sinn gang og samskipti verða að vera fyrst og fremst að vera á milli lögregluyfirvalda í viðkomandi ríki og hér heima.“
Nú sjáum við varðandi stríðið í Úkraínu, þar beitir utanríkisráðherra sér. Hvar er línan? Afhverju beitir ráðherra sér þegar kemur að stríðinu í Úkraínu en getur ekki ger það í svona máli?
„Þetta tvennt er gjörólíkt. Annað er pólitískt mál. Stríð og stríðsrekstur eru hápólitísk og lausnir á þeim eru pólitískar og þess vegna tekur Ísland þátt í ríkjasamstarfi og beitir sér fyrir pólitískum lausnum á ófriði en í einstaka sakamálum er allt öðru til að dreifa.“