Leikur liðanna var jafn frá upphafi til enda. Bosnía leiddi með tveggja stiga mun, 30-28, eftir fyrsta leikhluta en Ísland var með eins stigs forystu í hálfleik, 51-50.
Íslensku strákarnir bættu lítillega við forskotið í þriðja leikhluta en að honum loknum var munurinn fimm stig, 76-71 fyrir Ísland en þá forystu lét liðið aldrei af hendi og náði að halda þeim bosnísku frá sér allan fjórða leikhlutann. Fimm stiga sigur varð niðurstaðan, 96-91.
Ísland hafnar því í fimmta sæti á mótinu en Birkir Hrafn Eyþórsson úr Selfossi var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 34 stig. Viktor Jónas Lúðvíksson úr Stjörnunni var þá með 18 stig, tólf fráköst og stal þremur boltum.