Nemandinn sem um ræðir fékk fjögurra daga brottvísun frá skólanum. Í pósti til nemenda hvatti skólameistari FSu til þess að nemendur vönduðu sig í umræðum um málið, sem væri erfitt fyrir alla sem að því kæmu. Þá voru nemendur beðnir um að ræða málið ekki á samfélagsmiðlum, og minnt á að menn teldust saklausir þar til sekt þeirra væri sönnuð. Fulltrúar nemenda eru óánægðir með viðbrögð skólans.
Í póstinum sem skólameistarinn, Olga Lísa Garðarsdóttir, sendi nemendum, kom einnig fram að þar sem meintur gerandi og brotaþoli væru undir átján ára aldri ættu þau bæði rétt á að mæta í skólann eftir helgina, þar sem ekki væri búið að dæma í málinu. Forsvarsmenn nemendafélagsins telja viðbrögð stjórnenda ekki góð.
„Það er náttúrulega ekki ásættanlegt að nemandi geti verið rekinn fyrir það að mæta ekki í tíma, en þegar eitthvað svona kemur upp, þá er það bara fjögurra daga straff. Og okkur finnst ekki réttlætanlegt að þolandi geti mætt geranda sínum á ganginum í skólanum. Nei,“ segja Ásrún Aldís Hreinsdóttir og Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir, formaður og varaformaður nemendafélags FSu.
Ásrún og Sirrý eru einnig óánægðar með skilaboð skólameistarans til nemenda.
„Til að byrja með þá á aldrei að þagga niður svona mál. Talið um þetta á samfélagsmiðlum eins og þið viljið, því að svona mál á að ræða. Þetta á ekki að vera þaggað. -Við viljum ekki gerendameðvirkni. -Nei“
Þær gera ráð fyrir að ræða við skólastjórn um málið eftir helgi.
Og hverju ætlið þið að koma á framfæri við skólastjórnendur?
„Þar sem við erum nemendafélag þá verðum við að koma skoðunum nemenda á framfæri og það er augljóst hver sú skoðun er. Nemendur eru ósáttir.“
Lögreglan á Suðurlandi hefur staðfest við fréttastofu að embættið sem með meint kynferðisbrot innan veggja FSu til rannsóknar, en gat ekki tjáð sig að öðru leyti.