Mané er múslimi og í samræmi við trú hans þá drekkur hann ekki áfengi. Þess vegna var þessi þrítugi Senegali ekki með bjór í hönd eins og liðsfélagar hans í myndatökunni.
Marokkóbúinn Noussair Mazraoui, sem einnig er íslamstrúar, var ekki heldur með bjór í myndatökunni.
Aðrir leikmenn Bayern héldu hins vegar brosandi á stóru bjórglasi og voru allir leikmenn að sjálfsögðu í októberhátíðarklæðnaði.
As a devoted Muslim, Sadio Mane chose not to hold a beer in Bayern Munich's traditional photoshoot pic.twitter.com/PAnQqF9I4I
— ESPN FC (@ESPNFC) August 29, 2022
Októberfest er árleg bjórhátíð sem er haldin í München, heimaborg Bayern, sem reyndar hefur ekki verið haldin tvö síðustu ár vegna kórónuveirufaraldursins. Hátíðin verður hins vegar haldin í ár og fer fram dagana 17. september til 3. október.
Mané hefur áður vakið athygli fyrir að sniðganga áfengi en hann bað Takumi Minamino, þáverandi liðsfélaga sinn hjá Liverpool, vinsamlegast um að leggja frá sér kampavínsflösku fyrr á þessu ári þegar þeir voru að fagna saman sigri Liverpool í enska deildabikarnum.
Þegar Liverpool varð Englandsmeistari árið 2020 var kampavínið auk þess óáfengt sem leikmenn notuðu til að fagna titlinum á Anfield, af tilliti til Mané og Mohamed Salah sem sömuleiðis drekkur ekki áfengi.