Atvinnumaður í fótbolta í dönsku úrvalsdeildinni var handtekinn af lögreglunni í Kaupmannahöfn og er á meðal annara hluta, sakaður um að hafa nauðgað konu á hótelherbergi. Þetta var staðfest af héraðsdómi í Kaupmannahöfn á laugardag, samkvæmt danska miðlinum TV2.
Maðurinn sem um ræðir fór fyrir dóm á laugardag þar sem málið var tekið til málsmeðferðar. Hann lýsti yfir sakleysi sínu í málinu, og það staðfestir lögmaður hans, Tenna Dabelsteen.
Dómari í málinu staðfesti þá að nafnleynd skyldi ríkja í málinu og er maðurinn því áfram ónefndur í fjölmiðlum. Saksóknari hefur farið fram á framlengt gæsluvarðhald mannsins, sökum alvarleika og fjölda meintra brota hans.
Meint nauðgun átti sér stað á Hotel Imperial í Kaupmannahöfn í apríl. Samkvæmt TV2 á maðurinn að hafa neytt konu til munnmaka án hennar samþykkis. Maðurinn er enn fremur sakaður um að hafa brotið gegn tveimur konum til viðbótar í júlí og ágúst, en um vægari brot er að ræða í þeim tilfellum.
TV2 reyndi að ná sambandi við félag leikmannsins, sem er einnig ónefnt, en hefur ekki fengið viðbrögð.