Blettatígrar voru á árum áður íbúar skóga Indlands en hurfu alfarið árið 1952. Talið er að nokkrir hlutir hafi valdið því að tegundin dó út, þar á meðal veiðar, tap á skóglendi og matarskortur.
Alls verða tuttugu blettatígrar sendir til Indlands á komandi árum og mættu fyrstu átta þangað í dag. Þeir voru fluttir til borgarinnar Gwalior frá Namibíu í sérhannaðri Boeing 747-flugvél. Í Gwalior var þeim komið fyrir í þyrlu og flogið með þó til Kuno-þjóðgarðsins í Madhya Pradesh-fylki.

Kuno-þjóðgarðurinn er afgirtur með rafmagnsgirðingum en sérstakir hópar munu fylgjast með blettatígrunum í garðinum og passa upp á að allt sé í lagi með þá. Garðurinn er tæplega 750 ferkílómetrar að stærð en fleiri villt dýr búa þar, svo sem villigeltir og antílópur.
Einhverjir óttast áætlanir Indverja um að koma upp stofni blettatígra í garðinum en dýrið er afar viðkvæmt og forðast allan ágreining við önnur rándýr. Blettatígrar lenda oft í árásum annarra dýra og telja einhverjir að afkvæmi þeirra muni að öllum líkindum vera drepin í garðinum, líklegast af stórri jagúarahjörð sem einnig býr í garðinum.