Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar eru 97 prósent fimm ára alíslenskra barna með mun betri íslenskufærni en börn sem eiga erlenda foreldra og fæðast á Íslandi.
Þetta eru sláandi niðurstöður að sögn eins rannsakandans, enda hafi lengi verið talið að erlend börn sem fæðist á Íslandi nái fljótt góðum tökum á málinu inni í leikskólunum.
„Þetta virðist vera algengur misskilningur að börn læri tungumál eins og að drekka vatn. En þetta er erfitt fyrir þau og við verðum að hafa það í huga að það er ekki eins einfalt og við töldum fyrir þau að læra tungumálið,“ segir Hjördís Hafsteinsdóttir, sem vann rannsóknina ásamt þeim Jóhönnu T. Einarsdóttur prófessor og Irisi Eddu Nowenstein, doktorsnema í íslenskri málfræði. Rannsóknin er byggð á meistaraverkefni Hjördísar.
Vill íslenskukennslu í leikskóla
Börnin sem tóku þátt í könnunni voru öll fimm ára gömul, í efsta bekk í leikskóla.
Hjördís segir þennan hóp gjarnan gleymast í umræðunni. Almennt sé litið svo á að önnur kynslóð innflytjenda á Íslandi hafi jöfn tækifæri og aðrir í samfélaginu.
„Þetta hefur áhrif á sjálfsmynd; að börn geti ekki tjáð vilja sinn og skoðanir. Þannig að þau draga sig alveg til hlés. Svo náttúrulega er það þetta tækifæri til menntunar. Þau hafa ekki sömu tækifæri til menntunar eins og íslensk börn,“ segir Hjördís.
Tvítyngdu börnin voru margfalt líklegri til að eiga erfitt með beygingar, eðlilega orðaröð innan setninga og höfðu mun verri orðaforða en hin börnin.
Hjördís sem sjálf hefur unnið í leikskóla kallar eftir aðgerðum. Ekki skorti vilja til þess meðal leikskólakennara að auka íslenskukennslu fyrir þennan hóp.
„En hafa kannski ekki tækin til þess eða tækifæri til þess. Þannig já þetta er eitthvað sem þarf að endurskoða,“ segir Hjördís.