Skoðun

Hvers virði er far­sæld barna og kennara?

Sigurður Sigurjónsson skrifar

Á Alþjóðadegi kennara standa stjórnendur, kennarar og starfsfólk leikskóla sig langt umfram eðlilegar kröfur, sem og aðra daga. En hversu langt er hægt að ganga? Er ekki þegar komið að þolmörkum?

Fyrir um ári síðan kom út skýrsla starfshóps Félags stjórnenda leikskóla og Félags leikskólakennara um vinnuumhverfi í leikskólum.

Niðurstöður skýrslunnar sýna að bæta þarf starfsumhverfi barna og fullorðinna í leikskólum. Tryggja þarf börnum meira rými og bæta þarf samráð á milli rekstraraðila leikskólanna og stjórnenda þeirra um fjölda barna í leikskólum.

Staðreyndin er sú að flestir rekstraraðilar gera stjórnendum leikskóla ekki kleift að fara eftir settum reglum. Samkvæmt reglum um húsnæði vinnustaða skal gera ráð fyrir rými fyrir starfsmenn sem starfa með börnum, en í fæstum tilfellum er það gert.

Eins skal gera ráð fyrir að lágmarki þriggja fermetra leikrými fyrir hvert barn. Þeirri kröfu er þó sjaldnast mætt. Mörg dæmi eru um að veggir og skápar séu taldir með þegar leikrými barna er reiknað út.

Allt of mörg börn í allt of litlu rými í allt of langan tíma hefur afleiðingar. Það hefur áhrif á menntun barnanna, líðan þeirra og geðtengsl. Einnig á starfsfólkið, starfsaðstæður og loftgæði. Líðan kennara hefur síðan bein áhrif á líðan barna.

Nú, ári eftir útgáfu skýrslunnar berast reglulega fréttir af versnandi aðbúnaði í leikskólum. Starfsfólki og börnum er gert að flytja inn í óklárað húsnæði á ókláraðri lóð. Þeim er gert að flytja úr einu ófullnægjandi og heilsuspillandi starfsumhverfi í annað. Starfsfólk fer í langtímaveikindi, aðrir gefast upp og segja sína skoðun með því að skipta um starfsvettvang.

Foreldrar þrýsta á að börn sín komist sem fyrst inn í leikskóla, leikskóla sem eru ekki tilbúnir til að taka á móti þeim. Þrýstingur foreldra og þjónustusækni rekstraraðila veldur of miklu álagi á leikskólakerfið. Við slíkar aðstæður hlýtur eitthvað að gefa sig á endanum.

Foreldrar, tíminn er kominn til að berjast fyrir því að börnin ykkar fái það lágmarksleikrými sem þau þurfa og eiga rétt á. Hættum að sætta okkur við að rekstraraðilar brjóti gegn þessum rétti barnanna.

Rekstraraðilar leikskóla, sveitarfélög, þið berið skyldu til að huga að öryggi og aðbúnaði barna og starfsmanna þeirra stofnana sem þið rekið. Ég hvet ykkur til að ganga strax til verka og gera úrbætur.

Til hamingju með Alþjóðadag kennara.

Höfundur er formaður Félags stjórnenda í leikskólum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×