Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en drengirnir slóu fólk í jörðina og spörkuðu meðal annars í höfuð fórnarlamba sinna. Þá voru þeir vopnaðir eggvopnum sem lögregla segir þá hafa ógnað fólki með en málið var afgreitt með aðkomu Barnaverndar og drengirnir vistaðir á viðeigandi stofnun.
Þá hafði lögregla afskipti af nokkrum ökumönnum vegna ölvunar en í einu tilfelli kom í ljós að ökumaður væri vopnaður eggvopnum. Voru þau haldlögð og verður maðurinn kærður fyrir vopnalagabrot. Einnig var ökumaður stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi þar sem hann ók á 140 kílómetra hraða en hann reyndist sviptur ökuréttindum.
Tveir einstaklingar í annarlegu ástandi voru handteknir og vistaðir í fangaklefa, annar þeirra í hverfi 104 og hinn í 108.
Þá voru fjögur innbrot skráð í dagbók lögreglu, þar af þrjú í fyrirtæki í Árbæ og Breiðholti en ekki liggur fyrir hversu miklu var stolið þar. Í fjórða tilfellinu var um að ræða innbrot í verslun í Kópavogi þar sem sjóðsvélum með skiptimynt var stolið en málið er í rannsókn.
Fréttin hefur verið uppfærð.