Öðruvísi en áður
Árný segir hátíðina leggjast vel í sig.
„Ég er bara mjög spennt. Ég er að fara að spila með bandi í fyrsta skipti, sem verður öðruvísi en ég hef gert áður. Ég hlakka bara til sjá alla hina tónlistarmennina, finna Airwaves fílinginn og spila auðvitað!“
Innblásturinn kemur úr öllum áttum til þessarar tónlistarkonu og má þar nefna umhverfið, fólk, veðrið, tónlist og textabrot.
„Líka eitthvað sem ég er að fást við á því augnabliki, það getur verið svo ótrúlega margt sem veitir innblástur.“
Byrjaði fyrir ári
Þrátt fyrir að búa að mikilli reynslu hefur Árný ekki verið í bransanum í langan tíma.
„Það er í rauninni bara ár síðan ég byrjaði í þessu öllu saman. Fyrsta giggið var einmitt á Airwaves í fyrra, þá hafði ég bara gefið út eitt lag,“ segir Árný og bætir við:
„Nú hef ég gefið út EP plötu og svo plötu í fullri lengd sem kom út núna í október.“
Árið hefur verið stútfullt af ævintýrum hjá henni en hún hefur verið að spila og ferðast mikið.
„Ég hef komið fram í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum. Ég hef farið í nokkrar tónleikaferðir og hitaði þar á meðal upp fyrir Leif Vollebekk, Blake Mills og Pino Palladino, sem eru tónlistarmenn sem ég hef haldið lengi upp á.
Svo kom ég fram á Newport Folk Festival í júlí, sem er mjög stórt tækifæri svona snemma á ferlinum.“
Sterkari eftir stór tækifæri
„Ég hef lært rosalega margt og þroskast á þessu öllu saman. Líka þar sem ég hef ekki ferðast mikið áður, þá er þetta alveg út fyrir þægindarammann að fara til útlanda og spila fyrir mörg hundruð manns.“
Árný segir þetta búið að vera erfitt og gaman á sama tíma.
„Ég er samt búin að kynnast mér meira, orðin sterkari og farin að þora aðeins meira en áður. Ég er mjög þakklát fyrir öll þessi stóru tækifæri og allt fólkið sem ég er búin að fá að vinna með.“
Aðspurð hvað hún geri til að undirbúa sig rétt fyrir gigg segir Árný Margrét:
„Ég vel mér föt, geri mig til, raula lögin eitthvað aðeins með gítarinn og reyni að ná einbeitingu. En ég held að ég hafi enga heilaga rútínu, bara að stilla gítarinn kannski og tússa upp settlista.
En eftir gigg þá fæ ég mér eitthvað gott, einhvern góðan mat eða snarl, fer í sturtu og hef það kósý. Það er orðin svolítil hefð.“
Árný spilar í Fríkirkjunni laugardagskvöldið 5. nóvember. Það er margt fleira á döfinni hjá henni en hún er farin að huga að útgáfutónleikum í tengslum við nýju plötuna.
„Svo eru nokkur festivöl erlendis eftir áramót og eitthvað annað í bland, þar til meira kemur í ljós!“