Við tökum einnig stöðuna á innrás Rússa í Úkraínu en þeir síðarnefndu gerðu umfangsmikla drónaárás á flota Rússa í Svartahafi í morgun, með þeim afleiðingum að nýtt flaggskip skemmdist.
Þá verður rætt við kafara sem stýrði aðgerðum við Þingvallavatn þar sem flugvél fórst í byrjun árs. Hann lýsir óhugnaði og skelfingu í djúpinu en nauðsynlegt hafi verið að bæla niður slíkar tilfinningar. Við sýnum einnig myndir frá botni vatnsins þegar verið var að hífa flakið upp.
Við sýnum einnig frá aldarafmæli hjúkrunarheimilisins Grundar, ræðum við erlenda gesti Íslandskynningar í Lundúnum og Magnús Hlynur kynnir sér gríðarlega uppbyggingu á Ísafirði. Þetta og ýmislegt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu 18:30.