Það var Íslendingaslagur í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik þegar lið Melsungen tók á móti Guðjóni Val Sigurðssyni og lærisveinum hans í Gummersbach í kvöld.
Í liði Melsungen er landsliðsmaðurinn Arnar Freyr Arnarsson og hann var markahæsti leikmaður liðsins með sex mörk í 28-22 sigri á heimavelli. Hákon Daði Styrmisson skoraði einnig sex mörk í leiknum fyrir Gummersbach og Elliði Snær Viðarsson fjögur mörk.
Þá skoraði Teitur Örn Einarsson tvö mörk fyrir Flensburg sem vann stórsigur á Hamm-Westfalen, lokatölur þar 37-23.
Í sænsku úrvalasdeildinni voru þrír Íslendingar í eldlínunni. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði þrjú mörk fyrir Skövde sem beið lægri hlut á heimavelli fyrir IF Hallby. Ásgeir Snær Vignisson skoraði eitt mark í tapi Helsingborg gegn Kristianstad og þá var Tryggvi Þórisson í liði Savehof sem vann 29-20 sigur á Lugi á heimavelli.