Appelsínugul viðvörun tók gildi á Suðausturlandi klukkan sjö í morgun og er í gildi þar til í fyrramálið þegar gul viðvörun tekur við. Samkvæmt veðurstofunni er þar ofsaveður, vindur á bilinu 23 til 30 metrar á sekúndu en vindhviður allt að fimmtíu metrum taldar líklegar.
Lítið hefur verið um að vera hjá björgunarsveitum austast en nokkuð á Suðurlandi.
„Það kom ekki hvellur fyrr en um níuleytið þannig að þá fór að koma í ljós að það væri trúlega eitthvað af bílum fastir hér og þar. Við erum með bíla hérna út um allt að reyna að losa í kring um Eyrarbakka, Selfoss og Þingvelli. Þannig að það er nóg að gera,“ segir Ægir Guðjónsson, björgunarsveitarmaður í Árnessýslu.
„Það er ansi hvasst og blint og töluverð ófærð. Að mestu leyti er fólk að halda sig heima en einhverjir fóru af stað í morgun og komust þá að því að þeir komust hvorki land né strönd.“
Áttatíu verkefni á Suðurnesjum frá miðnætti
Á Austfjörðum, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og miðhálendinu eru gular viðvaranir í gildi vegna norðaustan storms. Búast má við éljagangi og skafrenningi og því ekkert ferðaveður. Öllum aðalleiðum á suðvesturhorni landsins, á Vesturlandi, Vestfjörðum og sunnan Vatnajökuls hefur verið lokað.
Flest verkefni hjá björgunarsveitum hafa verið á Suðurnesjum í dag, rétt eins og um helgina. Fylgdarakstur hefur verið reyndur á Reykjanesbraut í morgun en gengið brösulega og búið er að opna fjöldahjálparstöð í Reykjanesbæ.

Um áttatíu verkefni hafa komið á borð björgunarsveita á Suðurnesjum í morgun og björgunarsveitin Ægir í Garði var kölluð út rétt fyrir klukkan tvö í fyrsta verkefnið, við að losa bíla og halda sinni stofnæð opinni. Um fjögur í morgun var björgunarsveitin Suðurnes kölluð út og hefur verið að síðan.
„Þá lokuðum við Reykjanesbrautinni og fljótlega upp úr því, þegar fólk fór á stjá þá hrúguðust inn verkefnin og við erum bara búin að vera að ýta moka og draga allan morgun. Við erum enn að og sjáum ekki fyrir endann á því strax,“ segir Haraldur Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Suðurnes.
Fólk sé heima þegar kortið líkist björgunarsveitargallanum
Síðan hafi umferðin aðeins róast og greinilegt að fólk taki mark á viðvörunum viðbragðsaðila, sem sé kærkomið.
„Umferðin hefur minnkað, sem er mjög jákvætt fyrir okkur,“ segir Haraldur.
„Þetta er búin að vera alveg ofboðslega löng helgi fyrir okkur. Við erum með mannskap sem er á síðustu metrunum í orkunni og hvíldin verður kærkomin þegar þessi hvellur verður búinn.“
Hann biðlar til fólks að halda sig heima.
„Það er ekkert ferðaveður. Reykjanesskaginn er bara rauður og það er gott að muna það að þegar veðurspárnar og -kortin líta út eins og björgunarsveitargallarnir þá er bara gott að vera heima.“