Tvö 1. deildarlið eru í undanúrslitunum kvennamegin. Þau drógust ekki saman. Stjarnan mætir Keflavík og Snæfell, sem er í undanúrslitum annað árið í röð, mætir Haukum sem eiga titil að verja.
Í karlaflokki drógust bikarmeistarar Stjörnunnar gegn Keflavík, toppliði Subway-deildarinnar. Í hinni viðureigninni mætast Valur og Höttur sem er í undanúrslitum í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Undanúrslitaleikir kvenna fara fram 10. janúar og undanúrslitin karlamegin daginn eftir. Úrslitaleikirnir verða svo laugardaginn 14. janúar. Leikið verður í Laugardalshöll en 2020 og 2021 fór úrslitahelgin fram í Smáranum í Kópavogi.