„Ég er mjög spenntur að sjá íslenska liðið í þessum leik á móti Þjóðverjum og það er langt síðan maður var jafn spenntur fyrir æfingaleik hjá íslenska landsliðinu. Væntingarnir fyrir heimsmeistaramótið eru náttúrulega mjög miklar og það verður gaman að sjá hvar liðið stendur," sagði Theódór Ingi í samtali við Vísi.
„Það sem ég er kannski spenntastur að sjá er uppstillingin hjá Guðmundi, það er til að mynda hver byrjar á línunni, hvernig þristablokkin okkar verður skipuð í vörninni og fleira. Ég held að við séum bara að fá tvo hörkuleiki og spennandi að sjá hvernig þetta fer," sagði hann enn fremur.
„Þetta er góð generalprufa fyrir stóru stundina, það er uppselt á báða leikina þannig að þetta verður bara gaman. Ég held að Guðmundur muni dreifa álaginu vel og flestir leikmenn liðsins muni fá tækifæri í leikjunum tveimur
Það er innan við sólarhringur á milli leikjanna þannig að ég held að langflestir leikmenn muni fá mínútur. Það er frábært að fá tvo leiki við sterkan andstæðing svona rétt fyrir mót," sagði sérfræðingurinn um komandi verkefni.
Fram kom í frétt á samfélagsmiðlum HSÍ í dag að allir 18 leikmenn íslenska liðsins verði á skýrslu í leiknum á eftir.
Leikurinn sem hefst klukkan 15.15 verður í beinni textalýsingu á visi.is. Það styttist svo óðfluga í að íslenska liðið hefji leik á heimsmeistaramótinu sem hefst í Svíþjóð og Póllandi í næstu viku.