Ólafur var gestur áttunda og síðasta þáttar Stórasta landsins, hlaðvarpsþáttar Stefáns Árna Pálssonar, þar sem farið er yfir leið íslenska handboltalandsliðsins að silfurverðlaunum á Ólympíuleikunum í Peking.
Þeir Ólafur og Stefán Árni fóru um víðan völl í viðtalinu og ræddu meðal annars um hvernig Ólafur spilaði leikinn; getuna til að finna samherjana og velja besta kostinn sem í boði var hverju sinni. Ólafur segir að þarna eigi þeir Ómar margt sameiginlegt.
„Það er eins og sumir séu meira með þetta í blóðinu en aðrir. Horfðu bara á Ómar og spyrð: fékk hann einhverjar sérstakar æfingar? Af hverju er hann svona geggjaður í þessu?“ sagði Ólafur.
Hann segir að þeir Ómar hafi fundið leið til að skara fram úr með öðrum leiðum en líkamsburðum.
„Það sem er líkt með okkur Ómari, ég var ekkert rosalega sterkur þegar ég var yngri og ólst upp í horninu. Þegar ég kom fyrir utan var ég ekki sterkasti gæinn og þá ferðu í þetta. Þú ferð alltaf í að reyna að vinna mann og ef þér tekst það sleppirðu boltanum um leið,“ sagði Ólafur.
„Þú byrjar að fá tilfinningu fyrir öllu plássinu, öfugt við einhvern sem er svo ógeðslega sterkur og góð skytta að hann þarf ekkert að pæla í því. Þá missir hann það í uppeldinu. Ómar er mjög gott dæmi um það gagnstæða. Gæi sem er lítill og ekki sterkur og fljótur eða eitthvað tröll, þannig þetta er hans leið til að komast af meðan hann er að þroskast.“
Ólafur segist sjá sig í Ómari. „Algjörlega, mikið. Taktarnir og þessi ró. Mér finnst líka heiður að geta borið mig saman við karakterinn. Hann er góður á ögurstundu og það er ekki margt sem bifar honum,“ sagði Ólafur.
Hlusta má á áttunda þátt Stórasta landsins í spilaranum hér fyrir ofan.