„Við byrjuðum leitina á þriðjudag en höfum engar upplýsingar frá því á laugardag. Þannig við erum bara að leita og fengum liðsstyrk frá björgunarsveitum í dag,“ segir Ásmundur Kristinn Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Vesturlandi, í samtali við fréttastofu. Hann segir lögreglu ekki hafa neinar nýjar vísbendingar um ferðir Modestas.

Leit hófst á ný klukkan 7 í morgun. Notast hefur verið við þyrlu, fjölmarga dróna og fjórtán leitarhunda. Ásmundur biðlar til fólks í Borgarfirði að kanna bílskúra og sumarbústaði.
„Hann fór ekki á bílnum sínum og ekki með síma þannig við erum bara að leita að manni sem er á fæti.“
Svæðið sem leitað er á spannar einhverja tugi kílómetra, segir Ásmundur, og leitað er bæði á landi og sjó.