Blazter í lykilhlutverki í sigri viðstöðu á TEN5ION

Snorri Rafn Hallsson skrifar
blazter

Fyrri leikur liðanna fór 16–14 fyrir Viðstöðu í Ancient en í gærkvöldi mættust liðin í Ancient. TEN5ION vann hnífalotuna og kaus að byrja í vörn en með þrefaldri fellu frá Pabo vann Viðstöðu skammbyssulotuna. Bæði lið misstu marga menn í annarri lotu en Viðstöðu tókst að sprengja sprengjuna. Leikmenn Viðstöðu spiluðu enda mjög hratt, hittu vel og voru tilbúnir að taka sénsa. TEN5ION missti gjarnan menn snemma í lotum og hafði ekki yfir nægum búnaði að ráða til að hindra Viðstöðu í að koma sprengjunni fyrir. Leikmenn Viðstöðu voru fastir fyrir og allt gekk upp hjá þeim. Eftir sjö lotur var staðan 7–0 Viðstöðu í hag.

Í áttundu lotu var Tight hársbreidd frá því að koma TEN5ION á blað með vappanum en allt kom fyrir ekki. Viðstöðu tókst alltaf að ná tökum á rampinum og vinna bardaga út frá því svo TEN5ION fékk ekkert pláss til að vinna með. Blazter og Pabo röðuðu inn fellunum og í níundu lotu skellti Blazter í frábæran ás til að neita tilburðum TEN5ION enn á ný.

Í elleftu lotu varð það TEN5ION til happs að eiga enga reyksprengju og sáu þeir því betur í upphafi lotunnar og náðu í sitt fyrsta stig í leiknum. Moshii tókst að tryggja þeim aðra lotu áður en hálfleikurinn var úti og Pressi og Sveittur bættu þeirri þriðju við gallalaust. Vann TEN5ION 4 af fimm síðustu lotunum.

Staðan í hálfleik: Viðstöðu 11 – 4 TEN5ION

Viðstöðu byrjaði varnarleikinn á að vinna fyrstu tvær loturnar. Eftir það áttu þeir erfitt með að verja sprengjusvæðið og töpuðu því næstu lotum á eftir. Vappalausum tókst þeim ekki að brjóta sér leið inn á sprengjusvæðið og TEN5ION hafði yfirhöndina, sérstaklega á rampinum. Það þurfti gríðarlegt einstaklingsframtak frá Blazter og Pabo til að Viðstöðu tækist að snúa þessu við og komast í stöðuna 14–8. Aftur var það Pabo sem átti ótrúlegar fellur með skammbyssur þar sem hann kom í bakið á TEN5ION og aftengdi svo sprengjuna til að koma Viðstöðu í sigurstöðuna 15–9. 

Í 24. lotu var Pressi einn gegn tveimur, þóttist koma sprengjunni fyrir og setti þrýsting á Viðstöðu. Hann náði Xeny og kom sprengjunni fyrir. Allt var því á herðum Klassy sem féll á lokasekúndunum. TEN5ION afgreiddi næstu lotu á örskotsstundu og pressa komin á Viðstöðu að ljúka leiknum sem fyrst. Það tókst í næstu lotu þegar Mozar7 tók Moshii út með handsprengju.

Lokastaða: Viðstöðu 16 – 11 TEN5ION

Næstu leikir liðanna: 

  • TEN5ION – Ármann, þriðjudaginn 7/2 kl. 19:30
  • Atlantic – Viðstöðu, þriðjudaginn 7/2 kl. 20:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir