Íslenski boltinn

Skoruðu þrjú af fjórum mörkum leiksins en töpuðu samt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Orri Garðarsson kom á láni frá Stjörnunni á dögunum og byrjar tímabilið vel með HK.
Dagur Orri Garðarsson kom á láni frá Stjörnunni á dögunum og byrjar tímabilið vel með HK. @hkfotbolti

HK, Haukar og Þór Akureyri komust öll áfram í 32 liða úrslit Mjólkurbikars karla í fótbolta í kvöld.

HK vann 4-0 sigur á Hvíta Riddaranum í Kórnum eftir að hafa komist í 3-0 á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.

Dagur Orri Garðarsson skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins, fyrst mörk á 4. og 11. mínútu en kórónaði síðan þrennuna með marki úr vítaspyrnu á 18. mínútu. Þorsteinn Aron Antonsson skoraði síðan fjórða markið á 63. mínútu.

Dagur Orri kom á láni frá Stjörnunni á dögunum og er heldur betur að byrja vel með Kópavogsliðinu.

Þórsarar unnu sjö marka sigur á nágrönnum sínum hinum megin við Eyjafjörðinn en Magni frá Grenivík kom í heimsókn í Bogann í kvöld. Úrslitin 7-0 fyrir Þórsliðið eftir að liðið komst í 5-0 fyrir hálfleik. Ibrahima Balde skoraði tvö mörk fyrir Þór í kvöld en hin mörkin skoruðu Einar Freyr Halldórsson, Sigfús Fannar Gunnarsson, Aron Ingi Magnússon, Atli Þór Sindrason og Sverrir Páll Ingason.

Haukarnir unnu 3-1 útisigur á Elliði á Fylkisvellinum. Elliðamenn skoruðu reyndar þrjú af fjögur mörkum leiksins en því miður fyrir þá voru tvö þeirra sjálfsmörk.

Magnús Ingi Halldórsson kom Haukum í 1-0 strax á 5. mínútu en Emil Ásgeir Emilsson jafnaði metin á 16. mínútu.

Elliðamennirnir Þröstur Sæmundsson og Gylfi Gestsson skoruðu síðan í eigið mark, á 26. og 48. mínútu, og tryggðu Haukum sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×