Breska ríkisútvarpið greinir frá því að skörp aukning hafi orðið í fjölda daglegra notenda að undanförnu. Það hafi verið kærkomnar fréttir fyrir samfélagsmiðlarisann, þar sem kostnaður við rekstur Facebook hafi aukist og auglýsingatekjur farið dvínandi.
Á síðasta ári réðist Meta, móðurfyrirtæki Facebook sem einnig á samfélagsmiðlana Instagram og WhatsApp, í umfangsmikla endurskipulagningu á starfsemi sinni. Í henni fólst meðal annars að segja upp um 11 þúsund manns, eða 13 prósent af starfsliði fyrirtækisins. Meta skilaði 23,2 milljarða dollara hagnaði á síðasta ári, en það nemur um 3.240 milljörðum íslenskra króna.
„Árið 2022 var krefjandi, en ég held að í lok þess höfum við náð nokkuð góðum árangri,“ hefur BBC eftir Mark Zuckerberg, forstjóra og meirihlutaeiganda Meta.