Í tilkynningu á vef Veðurstofunnar segir að ásamt hlýindunum sé búist við hvassri eða allhvassri sunnanátt. Þá sé búist við ákafri rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Þar sem ekki rignir gætu hlýindi og hnjúkaþeyr valdið hraðri snjóbráðnun.
Við þær aðstæður aukist líkur á votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum. Á svæðunum þar sem ekki rignir sé töluverður snjór og þar séu vot snjóflóð líklegri en krapaflóð og skriðuföll.
Svipaðar aðstæður og fyrir viku
Í tilkynningunni segir að svipaðar aðstæður verði á Patreksfirði á morgun og þegar krapaflóð féll í Gilseyrargili á Patreksfirði fyrir rúmri viku síðan.
„Núna virðist vera álíka mikill snjór eða ívið meiri í gilinu, og er ekki hægt að útiloka svipaðan atburð aftur,“ segir í tilkynningu. Í spilaranum hér að neðan má sjá myndskeið sem tekið var á Patreksfirði í síðustu viku.
Þá segir að þann 26. febrúar síðastliðinn hafi einnig fallið krapaflóð ofan Bíldudals, í Arnarfirði og Hnífsdal. Auk þess hafi snjóflóð fallið á Raknadalshlíð í Patreksfirði og jarðvegsskriða utan við Vík í Mýrdal.
„Sunnudaginn 5. febrúar eru vegfarendur og ferðafólk hvött til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatnsfarvegum í brattlendi þar sem krapaspýjur geta borist niður. Íbúar í húsum nærri farvegum þar sem krapaflóð hafa fallið eru hvattir til þess að sýna aðgæslu og ekki dvelja að óþörfu nálægt farvegunum,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Þá segir að veðurspá geri ráð fyrir að kólni í veðri annað kvöld og samhliða því ætti að draga úr hættu á votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum.