Skoðun

Dvínandi stuðningur við stað­reyndir

Jón Steindór Valdimarsson skrifar

Á þessum vettvangi birtist grein þann 17. febrúar. Fyrirsögn hennar var: Dvínandi stuðningur við inngöngu í ESB. Greinarhöfundur, Hjörtur J. Guðmundsson, reynir þar að sýna fram á að stuðningur við aðild að Evrópusambandinu hafi farið dvínandi á síðustu misserum og birtir línurit máli sínu til sönnunar. Þar er vitnað til niðurstaðna skoðanakannana þriggja fyrirtækja.

Eplin og appelsínurnar

Þegar er reynt er að átta sig á þróun viðhorfs eða skoðana til tiltekins málefnis er grundvallaratriði að bera saman sömu hluti. Það er mikilvægt að um nákvæmlega sömu spurningu sé að ræða, sömu aðferðafræði sé beitt og að þýðið sé fundið með sama hætti.

Þetta grundvallaratriði er virt að vettugi í framsetningu Hjartar og er niðurstaðan eftir því.

Hann tekur mælingu Gallup í mars 2022, Prósents í júní og nóvember 2022 og loks Maskínu núna í febrúar. Þessi þrjú fyrirtæki spyrja ekki eins og þau beita ekki sömu aðferðum við að velja þau sem spurð eru. Það er einföld staðreynd.

Gallup spyr: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?

Prósent spyr: Hve hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu aðild Íslands að Evrópusambandinu?

Maskína spyr: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að Ísland gangi í Evrópusambandið (ESB)?

Augljósar breytingar

Það ég best veit á fyrirtækið Maskína (og áður MMR) eina lengstu samfelldu tímaröð þar sem nákvæmlega sama spurningin er borin upp um viðhorf til aðildar að Evrópusambandinu á grundvelli sömu aðferðafræði. Gögn Maskínu ná aftur til maí 2011.

Allar mælingar Maskínu þar til í maí 2022 sýna að fleiri eru andvíg aðild en hlynnt, en þá er staðan hnífjöfn en í mælingunni í júní 2022 munar tæpu prósentustigi andvígum í vil. Í byrjun febrúar er niðurstaðan sú að þau sem eru hlynnt aðild eru orðin fimm prósentustigum fleiri en þau sem eru andvíg.

Á meðfylgjandi línuriti má glöggt sjá að á milli mælinga í febrúar 2022 og febrúar 2023 hefur hlutfall þeirra sem eru hlynnt því að Ísland gangi í Evrópusambandið hækkað úr 27,9% í 40,8% eða um 12,9 prósentustig. Með sama hætti hefur hlutfall þeirra sem eru andvíg aðild lækkað úr 46,6% í 35,9% eða um 10,7 prósentustig og þeim sem eru hvorki hlynnt né andvíg fækkað úr 25,5% í 23,3% eða um 2,2 prósentustig.

Niðurstaða Hjartar um að þeim sem eru hlynnt aðild að ESB hafi fækkað undanfarið er því ekki á rökum reist.

Höfundur er formaður Evrópuhreyfingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×