Mennirnir voru handteknir í samhæfðum aðgerðum lögreglu í Eskiltuna, Linköping og Strängnäs. Húsleit var gerð á nokkrum stöðum, að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT. Mennirnir eru sagðir tengjast hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams en Susanna Trehörning, aðstoðardeildarstjóri hryðjuverkadeildar sænsku öryggislögreglunnar Säpo, segist ekki geta greint frekar frá þeim tengslum.
Sænsk yfirvöld hafa fengið upplýsingar um hryðjuverkaógn í Svíþjóð eða gegn sænskum hagsmunum eftir að danski hægriöfgamaðurinn Rasmus Paludan brenndi Kóraninn fyrir utan tyrkneska sendiráðið í Svíþjóð í janúar. Þær brennur urðu einnig til þess að Tyrkir settu Svíum stólinn fyrir dyrnar um að ganga í Atlantshafsbandalagið.
Karin Lutz, blaðafulltrúi Säpo, segir að Kóranbrennan hafi verið tilefnið að fyrirætlunum mannanna sem voru handteknir í morgun, að því er kemur fram í frétt Aftonbladet.
Trehöring segir að mennirnir séu grunaðir um að undribúa hryðjuverk í Svíþjóð en að þau áform hafi verið á frumstigi. Árás hafi ekki verið aðsteðjandi. Saksóknari segir að mennirnir séu búsettir í borgunum þremur þar sem þeir voru handteknir. Taka þarf ákvörðun fyrir föstudag um hvort farið verður fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum eða þeim sleppt.