Upplýsingar um breytingarnar komu í ljós í dómskjali sem var lagt fram í dómssal í Kaliforníu 4. apríl síðastliðinn. Skjalið er hluti af málssókn hægrisinnaða aktívistans Lauru Loomer gegn Twitter og fyrrverandi forstjóra þess, Jack Dorsey.
Það er ekki ljóst hvaða þýðingu breytingin hefur fyrir Twitter sem Elon Musk keypti fyrir 44 milljarða Bandaríkjadala á síðasta ári. Musk hefur frá kaupunum ráðist í fjölda breytinga á forritinu sem hafa notið mismikilla vinsælda og nú hlýtur meira að vera í vændum.
X-forrit, X-hlutafélög og barnið X
Musk hefur áður talað um það að kaupin á Twitter séu hvati að sköpun X sem hann hefur lýst sem framtíðar-ofurforriti, eins konar allt-múlig-smáforriti. Hann hefur lýst X sem forriti svipuðu hinu kínverska WeChat, ofurforriti í eigu Tencent Holdings, sem er notað í allt frá miðabókunum og kortagreiðslum yfir í textaskilaboð.

Þegar Musk hóf yfirtöku sína á Twitter í apríl á síðasta ári stofnaði hann þrjú eignarhaldsfélög í Delaware sem voru öll afbrigði af nafninu „X Holdings“. Hins vegar var X Corp. stofnað 9. mars síðastliðinn í Nevada og var samruni þess við Twitter lagður fram opinberlega þann 15. mars síðastliðinn.
Musk er forseti X Corp. og móðurfélags þess, X Holdings Corp., sem var líka stofnað í síðasta mánuði og er með samþykkt hlutafé upp á tvær milljónir Bandaríkjadala samkvæmt opinberum skjölum.
Musk á sömuleiðis lénið X.com og notaði það fyrir netgreiðslufyrirtækið sem hann stofnaði og rann að endingu saman við PayPal.
Bókstafurinn x er greinilega í miklu uppáhaldi hjá Musk og hefur hann notað hann í alls konar nafngiftum. Hann skeytti honum aftan við fyrirtækið sitt SpaceX og bjó til Model X útgáfu af Tesla-bíl sínum. Fyrsta barn Musk með tónlistarkonunni Grimes heitir jafnframt X Æ A-12.
í morgun birti hann síðan tíst á Twitter sem samanstóð einungis af bókstafnum X.
X
— Elon Musk (@elonmusk) April 11, 2023