The Phantom of the Opera, eða Óperudraugurinn, er einn vinsælasti söngleikur allra tíma. Lögin úr söngleiknum eru eftir Andrew Lloyd Webber og er hann byggður á skáldsögunni Le Fantôme de l'Opéra eftir franska rithöfundinn Gaston Leroux.
Draugurinn steig fyrst á svið í West End leikhúsinu í London árið 1986. Þaðan lá leiðin til Broadway árið 1988 og hefur sýningin verið þar sýnd samfleytt síðan þá. Á 35 árum hefur tekist að sýna hana 13.981 sinnum. Það eru 12.865 dagar síðan sýningin var frumsýnd og því hefur hún verið sýnd meira en einu sinni á dag að meðaltali.
Eftir sýninguna í gær mætti Webber sjálfur á svið og tileinkaði sýninguna syni sínum, Nicholas Lloyd Webber, sýninguna, en hann lést í lok marsmánaðar á þessu ári eftir baráttu við krabbamein.

Fjöldi söngleikjastjarna var í salnum, þar á meðal Glenn Close sem hefur leikið í Broadway-verkum á borð við Death and the Maiden og Sunset Boulevard, og Lin-Manuel Miranda, höfundur Hamilton og In the Heights.
Ekkert verka Broadway hafði verið lengur í sýningu en Óperudraugurinn þar til í gær. Nú tekur Chicago við titlinum fyrir það verk sem er búið að vera lengst í sýningu, af þeim verkum sem enn eru í sýningu á Broadway. Það verk var fyrst sýnt árið 1996.
Garðar Thór Cortes söngvari hefur tekið þátt í hinum ýmsu uppsetningum á Óperudraugnum, til að mynda fór hann með hlutverk draugsins sjálfs í sýningunni Love Never Dies bæði í Hamborg árin 2015 til 2016 og í Bandaríkjunum 2017 til 2018. Sýningin er framhald af Óperudraugnum og var Garðar sérstaklega valinn af Webber til þess að syngja.

Óperudraugurinn var settur á svið í Hörpu árið 2018. Þá fór Þór Breiðfjörð með hlutverk draugsins en einnig fóru Valgerður Guðnadóttir, Elmar Gilbertsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Hlöðver Sigurðsson, Bergþór Pálsson, Gísli Magna, Bjarni Snæbjörnsson, Margrét Eir og Greta Salóme með hlutverk en sú síðastnefnda sá einnig um leikstjórn á verkinu.