Í Lögbirtingarblaðinu kemur fram að Jón Ögmundsson hæstaréttarlögmaður hafi verið skipaður skiptastjóri yfir búi Kórdrengja samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
Skorað er á alla sem telja sig eiga kröfur í bú Kórdrengja að lýsa þeim innan tveggja mánaða að því er fram kemur í tilkynningu frá skiptastjóra í Lögbirtingarblaðinu.
Uppgangur Kórdrengja undanfarin ár vakti mikla eftirtekt. Liðið hóf keppni í 4. deild 2017 en fjórum árum seinna endaði það í 4. sæti Lengjudeildarinnar, þeirrar næstefstu. Í fyrra lentu Kórdrengir í 5. sæti Lengjudeildarinnar og komust í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Eftir síðasta tímabil hætti Davíð Smári Lamude sem þjálfari Kórdrengja og tók við Vestra. Óvissa ríkti um þátttöku Kórdrengja í Lengjudeildinni í sumar en liðið mætti ekki til leiks í nokkra leiki í Lengjubikarnum. Viðræður við FH um að félagið tæki yfir Kórdrengi sigldu í strand og á endanum var greint frá því að Kórdrengir myndu ekki taka þátt á Íslandsmótinu. Ægir frá Þorlákshöfn tók sæti þeirra í Lengjudeildinni.
Þetta hafði svo keðjuverkandi áhrif. Þannig tók KFG sæti Ægis í 2. deild, Hvíti riddarinn sæti KFG í 3. deild, Hamar sæti Hvíta riddarans í 4. deild og Álafoss sæti Hamars í 5. deild.