Handtaka Romans Protasevich vakti heimsathygli þegar flugvél Ryanair, sem hann var um borð í og var á leið frá Aþenu til Litháen, var látin lenda í Hvíta-Rússlandi 23. maí 2021. Hann og kærasta hans Sofía Sapega voru handtekin um borð í vélinni.
Protasevich var eftirlýstur vegna mótmæla sem hann skipulagði gegn Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta-Rússlands. Frá handtöku þeirra hafa stjórnvöld birt myndbönd af parinu þar sem þau játa á sig meinta glæpi. Marga grunar að parið hafi verið neytt til að lesa upp yfirlýsingarnar. Í viðtali hrósaði Protasevich til að mynda Lúkasjenka fyrir „stálhreðjar“ hans og sagðist hafa haft ranga skoðun á forsetanum.
Mál Protasevich varð til þess að hvítrússneskum flugfélögum var bannað að fljúga í lofthelgi Evrópusambandsins og Bretlands. Það bann er enn í gildi. Þá var gripið til harðra viðskipta- og efnahagsþvingana gegn landinu.
Lúkasjenka hefur setið á forsetastóli í Hvíta-Rússlandi frá árinu 1994 og eru vísbendingar um að Lúkasjenka og stuðningsmenn hans hafi beitt víðtæku kosningasvindli til að tryggja að hann héldi völdum þegar forsetakosningar voru haldnar árið 2020. Ítarleg umfjöllun Vísis um forsetakosningarnar, aðdraganda þeirra og það sem fylgdi á eftir má lesa hér:
Protasevich var í dag sakfelldur af héraðsdómi í Minsk fyrir ýmsa glæpi í tengslum við störf hans sem blaðamaður og ristjóri Nexta, fréttarásar á samfélagsmiðlinum Discord, sem var mjög gagnrýnin á stjórn Lúkasjenka.
Meðal þess sem hann var sakfelldur fyrir var að skipuleggja fjöldamótmæli og óeirðir, fyrir að tala fyrir viðskiptaþvingunum gegn Hvíta-Rússlandi, fyrir að stofna og leiða öfgasamtök og fyrir að skipuleggja valdarán.
Sofía Sapega, kærasta Protasevich, var í maí í fyrra sakfelld fyrir að stuðla að óeiningu og var dæmd í sex ára fangelsi fyrir. Þá var Stepan Putilo, sem stofnaði Nexta með Protasevich á sínum tíma, dæmdur í tuttugu ára fangelsi í gær. Putilo er þó í útlegð í Póllandi.