Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt klukkan sjö alla daga vikunnar. Ég er mjög mikil morgunmanneskja, vakna í góðu skapi og þykir þetta yfirleitt besti tími dagsins, bæði á virkum dögum og um helgar. Í mörg ár vaknaði ég mikið fyrr en undanfarið legg ég upp með að ná alltaf sjö og hálftum til átta tíma svefni og þá hentar vel að vakna á þessum tíma.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Í nokkra mánuði núna höfum við Íris kærastan mín átt alveg yndislega morgunhefð þar sem við fáum okkur kaffi saman, borðum croissant og spilum Backgammon áður en við förum í vinnuna.
Annaðhvort hellum við upp á bolla heima eða förum í göngutúr á næsta kaffihús.
Ekkert smá kósý samverustund og góð byrjun á deginum … sérstaklega ef maður nær að vinna leik dagsins!“
Á skalanum 1-10: Hversu fyndinn ertu?
„Og sæll, þetta er rosaleg spurning haha! Ég ætla gefa mér „above average" en samt diplómatíska 7,5! Það er yfirleitt mjög stutt í grín hjá mér og helst svolítið svartur húmor eða eitthvað sem er bannað að segja. Mér finnst það mjög fyndið. En húmor er svo rosalega afstæður - mig langar að segja að ég geti verið mjög fyndinn í kringum mína nánustu en svo er alveg örugglega fullt af fólki sem hefur ekkert gaman að mér.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Við erum á lokametrunum með að flytja Górillu Vöruhús upp á Korputorg í fjórfalt stærra húsnæði! Það hefur verið stóra verkefnið síðustu tólf mánuði.
Annars er mitt daglega starf mjög skemmtilegt og er fyrst og fremst fólgið í því að hitta frumvöðla og stjórnendur fyrirtækja og hjálpa þeim að gera reksturinn sinn betri!“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Ég er algjör Apple Notes perri og skrifa þar niður allt sem skiptir máli. Stóra skipulagið er í Google Calendar eins og fundir, stór verkefni og slíkt.
En svo er ég með mörg hundruð glugga í gangi í Notes þar sem ég held utan um markmið, verkefni, to-do lista, hugmyndir og svo framvegis.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Við erum að yfirleitt að loka augunum um og uppúr klukkan ellefu en nú fer alltaf að vera erfiðara og erfiðara að skríða upp í rúm þegar það er orðið svona bjart á kvöldin.“