Lengjudeildarlið Grindavíkur gerði sér lítið fyrir í gær og sló Val úr Mjólkurbikarnum í knattspyrnu eftir öruggan sigur á Origo-vellinum. Lokatölur urðu 3-1 útisigur Grindavíkur sem hefur þar með tryggt sér sæti í 8-liða úrslitum keppninnar.
Mark Óskars Arnar, sem sneri aftur til Grindavíkur undir lok síðasta árs eftir 17 ára fjarveru, leit dagsins ljós á 74. mínútu en á þeim tímapunkti hafði Grindavík gert mjög vel og var tveimur mörkum yfir.
Reyndist þetta síðasta mark Grindavíkur í leiknum en um leið gerði það út um vonir Vals á endurkomu. Tryggvi Hrafn Haraldsson náði að klóra í bakkann fyrir Hlíðarendapilta í uppbótatíma venjulegs leiktíma en nær komust þeir rauðklæddu ekki.
Mark Óskars Arnar má sjá hér fyrir neðan:
Þvílíkt mark! Óskar Örn Hauksson skoraði frá miðju í sigri Grindavíkur gegn Val @umfg pic.twitter.com/yYAcClOaXl
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 18, 2023