Hinn 58 ára Chris Knoll, eða „Knollsy“, hefur verið kallaður „Engilinn í Alkmaar“ eftir að hann kom í veg fyrir að fótboltabullur réðust á maka og börn leikmanna West Ham í seinni undanúrslitaleik liðsins gegn AZ í Sambandsdeild Evrópu.
Knollsy er orðin hetja í augum stuðningsmanna West Ham og nú er búið að gera dótakall, eins konar aksjón kall, af honum. Hann er til sölu á eBay og kostar skildinginn. Hæsta tilboðið í hann er 5.100 pund. Hægt er að skoða kallinn með því að smella hér. Uppboðinu á dótakallinum lýkur seinna í dag.
Dótakallinn er í sömu fötum og Knollsy var í þegar hann varði fjölskyldur leikmanna West Ham fyrir bullunum í Alkmaar og með steytta hnefa. Skyrtan hans rifnaði í átökunum og Knollsy fékk glóðarauga.
Á næsta heimaleik West Ham, gegn Leeds United, var Knollsy kallaður upp á Ólympíuleikvanginum í London og hann fær gefins miða á úrslitaleik Sambandsdeildarinnar þar sem Hamrarnir mæta Fiorentina frá Ítalíu.
Þetta er fyrsti úrslitaleikur West Ham í Evrópukeppni í 47 ár og Knollsy var að vonum ánægður með miðann á leikinn.
„Ég var í vinnu þegar ég fékk símtalið. Ég grét næstum því. Ég var svo glaður og ánægður,“ sagði Knollsy sem getur vonandi horft á leikinn á Fortuna Arena í Prag 7. júní næstkomandi í rólegheitum.