Rannveig Hildur tjáði sig í einlægu viðtali fyrir skömmu um líðan sína á meðgöngunni sem og á fyrstu vikum sængurlegunnar með börnin fimm sem braggast vel.

Yngstu krílin þrjú fengu nöfnin sín í dag við fallega athöfn sem haldin var á heimilinu.

Helena Þóra, Ingvar Andri og Hafdís Gyða urðu fyrir valinu en eldri dæturnar tvær, Kristín María og Margrét Klara voru kampakátar við athöfnina.

„Samtals erum við núna búin að setja saman tíu nöfn sem er magnað,“ segir Rannveig Hildur því öll bera börnin tvö nöfn. Fæst þeirra eru samin út í bláin. „Einkasonurinn fékk nafn pabba síns að hluta til en hann heitir Hallgrímur Andri Ingvarsson - sá litli Ingvar Andri. Stelpurnar heita svo Hafdís Gyða, seinna nafnið eftir móður minni, Gyðu og Helena Þóra, seinna nafn eftir ömmu Hallgríms, en Helena og Hafdís eru bæði nöfn sem við völdum út í loftið,“ segir Rannveig Hildur brosandi að lokum.