Birna Kristín Eiríksdóttir var í fyrstu skráð í liðsstjórn Fylkis en endaði svo á að koma inn af bekknum sem varamaður. KR-ingar töldu að þar með væri um ólöglegan leikmann að ræða, kærði félagið því úrslitin og krafðist þess að sér yrði úrskurðaður 3-0 sigur.
Fylkir segir að dómari leiksins hafi vitað af breytingunni á leikskýrslu Fylkis fyrir leik og í raun hafi allt verið rétt á skriflegri skýrslu. Sú breyting hafi þó ekki ratað inn í rafræna skýrslu leiksins.
Þannig er mál með vexti að Birna Kristín var upphaflega í liðsstjórn en svo hafi hún komið inn í leikmannahópinn fyrir leik vegna meiðsla annars leikmanns. Þetta hafi dómarinn verið með á hreinu frá því áður en leikur var flautaður á.
Aga- og úrskurðarnefnd segir að ekki sé hægt að sjá annað en að Fylkir hafi fylgt öllum leiðbeiningum er varðar breytingu á leikskýrslu og því standi úrslitin.
Fylkir er í 6. sæti Lengjudeildar kvenna með 10 stig á meðan KR er í neðsta sæti með aðeins þrjú stig að loknum sjö umferðum.