Þetta kemur fram í tilkynningu Íslandsbanka frá því í kvöld. Ásmundur Tryggvason hefur gegnt stöðunni frá árinu 2019.
Það hefur verið mikil ólga í kringum Íslandsbanka undanfarið í kjölfar skýrslu Fjármálaeftirlitsins um bankasöluna sem sýndi að bankinn hefði framið alvarleg brot við söluna.
Í skýrslunni kom fram að Ásmundur hefði sett sig í samband við regluvörð Íslandsbanka til að liðka fyrir kaupum starfsmanna bankans í útboðinu en sjálfur keypti hann rúmlega 96 þúsund hluti fyrir rúmar ellefu milljónir.
Þess ber einnig að geta að hann er eiginmaður Önnu Lísu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra þingflokks Vinstri grænna.
Fylgir í fótspor Birnu
Birna Einarsdóttir, bankastjóri, sagði upp störfum í vikunni og var Jón Guðni Ómarsson ráðinn í hennar stað. Nú er Ásmundur líka hættur og hefur Kristín Hrönn Guðmundsdóttir verið ráðin í staðinn.
Í tilkynningu Íslandsbanka segir að Kristín Hrönn sé með B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands, stjórnendagráðu frá IESE Business School í Barcelona og hafi lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Hún hafi yfir tuttugu ára reynslu sem stjórnandi á fjármálamörkuðum. Hún stýrði teymi verslunar og þjónustu meðal stærri fyrirtækja á árunum 2013-2019 og hefur síðan þá verið forstöðumaður Fjármála, reksturs og stefnumótunar á sviðinu auk þess að sitja í lánanefndum, efnahagsnefnd og fjárfestingarráði bankans.
„Um leið og við þökkum Ásmundi fyrir hans störf bjóðum við Kristínu Hrönn velkomna í framkvæmdastjórn. Hún hefur víðtæka reynslu sem á eftir að nýtast vel í störfum hennar fyrir bankann,“ sagði Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka.