Mikil fótboltaveisla er nú að fara í hönd á Akureyri, þar sem strákar í 5. flokki spila á N1-mótinu næstu daga og eldri leikmenn, karlar og konur, spila á Pollamóti Þórs.
Segja má að veislan hefjist á leik KA og Breiðabliks en leikur liðanna hefst klukkan 17.30 í dag. Hinn undanúrslitaleikurinn er á milli Víkings og KR en það ræðst af árangri Víkinga í Sambandsdeild Evrópu hvenær sá leikur verður spilaður.
Blikar ættu að mæta fullir sjálfstrausts í leikinn í dag eftir sigrana stóru í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í síðustu viku, og þeir eru sjö stigum ofar en KA í Bestu deildinni þar sem liðin sitja í 3. og 6. sæti.
Eiga samtals einn bikarmeistaratitil
Hvorki KA né Breiðablik hafa riðið feitum hesti frá bikarkeppnum liðanna ára en Breiðablik á einn bikarmeistaratitil í sínu safni, frá árinu 2009, og KA-menn engan. Þess má þó geta að Íþróttabandalag Akureyrar varð bikarmeistari árið 1969.
Baráttan um Mjólkurbikarinn eftirsótta heldur áfram, undanúrslit á morgun.
— Mjólkurbikarinn (@mjolkurbikarinn) July 3, 2023
KA - Breiðablik þriðjudaginn 4. júlí kl.17:30 og mun sigurliðið leika til úrslita á Laugardalsvelli í ágúst. Mætum á völlinn og styðjum okkar lið! pic.twitter.com/c96YzmgklG
KA hefur ekki komist í bikarúrslitaleikinn síðan árið 2004 og því gæti nítján ára bið lokið í kvöld. Í þeim úrslitaleik tapaði liðið 3-0 fyrir Keflavík og KA tapaði einnig í úrslitaleik árið 2001, eftir vítaspyrnukeppni gegn Fylki, og árið 1992, eftir framlengingu gegn Val.
Breiðablik komst síðast í úrslitaleikinn árið 2018 og tapaði þá eftir markalausan leik og vítaspyrnukeppni gegn Stjörnunni. Liðið varð bikarmeistari 2009 eins og fyrr segir, með sigri á Fram í vítaspyrnukeppni, og komst einnig í úrslitaleikinn árið 1971 en tapaði þá 1-0 fyrir Víkingi.
Leikur KA og Víkings hefst klukkan 17.30 í dag og er í beinni textalýsingu á Vísi.