Puigdemont stýrði katalónsku héraðsstjórninni þegar hún lýsti einhliða yfir sjálfstæði frá Spáni árið 2017. Sjálfstæðisyfirlýsingin leiddi til þess að landsstjórnin í Madrid tók beina stjórn á sjálfstjórnarhéraðinu. Forsetinn flúði Spán til að forðast ákæru og hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu undanfarin ár.
Almenni dómstóllinn hafnaði áfrýjun Puigdemont og tveggja annarra katalónskra aðskilnaðarsinna sem Evrópuþingið ákvað að svipta friðhelgi árið 2021, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Puigdemont sagði að þeir ætluðu sér að áfrýja til Evrópudómstólsins.
Hæstiréttur Spánar felldi úr gildi ákæru á hendur Puigdemont fyrir uppreisn eftir að ákvæði um hana voru felld úr hegningarlögum í janúar. Pedro Sánchez, forsætisráðherra, náðaði þá sem höfðu þegar hlotið refsidóma í tengslum við sjálfstæðisyfirlýsinguna.
Puigdemont á enn yfir höfði sér ákæru fyrir að óhlýðnast stjórnvöldum og fjárdrátt. Hann gæti átt allt að átta ára fangelsi yfir höfði sér. Spænsk yfirvöld ætla sér enn að fá hann framseldan. Fyrri tilraunir þeirra til þess hafa mistekist.