Tilkynnt var um lokunina á Facebook síðu Álftanes Kaffi - Café & Bistro í gær. Staðurinn er sá eini af sínu tagi á Álftanesi og samkvæmt ummælum viðskiptavina verður hans sárt saknað.
Sigrún Jóhannsdóttir, annar eigandi staðarins, segir ástæður fyrir lokuninni margar í samtali við Vísi. „Við erum búin að reka þetta í átta ár núna. Svo eru náttúrlega ákveðnar breytingar á umhverfinu. Við auglýstum alltaf útsýnið sem við höfðum yfir Bessastaði en nú er mikil uppbygging á Álftanesi og blokkir og vinnusvæði hér í kring,“ segir Sigrún.
„Þá erum við ekki lengur svona sveit í borg, eins og við vorum, heldur eiginlega bara sveit á byggingarsvæði.“

„Svo er Skúli náttúrlega orðinn 67 ára,“ segir Sigrún og hlær. Hjónin hafa rekið staðinn tvö síns liðs frá upphafi. „Auðvitað tekur þetta á þegar á líður.“
Að auki segir hún kaffihúsið nú standa á víkjandi lóð og á henni verði bráðlega reistar íbúðir. Hún segir að þeim hjónum hafi staðið til boða að byggja undir nýtt kaffihús á nærliggjandi lóð en það hafi verið of stór biti fyrir þau.
„En allt gott tekur enda og eitthvað nýtt og spennandi tekur við,“ segir Sigrún. Hún segir að nýtt kaffihús muni rísa á svæðinu.
Skúli Guðbjarnarson, eiginmaður Sigrúnar og hinn eigandi staðarins, ræddi pítsurnar á Álftaneskaffi og matargerð í skemmtilegu viðtali á Vísi um árið. „Við viljum gera góðan mat og senda gesti okkar heim sadda og sátta. Markmiðið er að gleðja með mat,“ sagði Skúli meðal annars.
Hefur tekist vel til
„Við litum alltaf svo á að við værum að fá gesti heim,“ segir Sigrún um reksturinn. „Af því að við erum ekki fagfólkið í bransanum. Skúli líffræðingur og ég talmeinafræðingur,“ segir hún hlæjandi.

Hún segir þau hafa lagt áherslu á að elda og baka allan mat frá grunni. „Svo hefur okkur tekist vel til, þetta þykja bestu snúðarnir, bestu pítsurnar og bestu kökurnar, við heyrum þetta daglega!“