Hluthafafundur Íslandsbanka fór fram í dag og í lok fundarins var kosið í nýja stjórn bankans. Áður en það var gert var þó ákveðið að prófa kosningakerfið með æfingaspurningu: Hvað færðu þér á pizzu?
Valmöguleikarnir um álegg voru alls ellefu talsins. Ananas, skinka, auka ostur, ólífur, pepperóní, laukur, rjómaostur, hakk, beikon, sveppir og hvítlaukur. „Þetta höfðar vonandi til flestra. Við höfum þarna nokkuð marga valkosti,“ sagði Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður sem stýrði fundinum í dag.
Ljóst var að nokkuð léttara var yfir þessari kosningu heldur en þegar kosið var í stjórn bankans, eðlilega. Jóhannes Karl spurði til að mynda einn fundargest hvort hann væri að ráðfæra sig við stjórnarformann áður en hann skilaði inn sínum atkvæðum. Uppskar hann smá fliss úr salnum við það.
„Svo kemur auðvitað pizzan á borðið til ykkar á eftir,“ grínaðist hann svo með. „Þetta er mjög spennandi, ég sé hvernig kosningin er að þróast. Þetta verða mjög mikilvægar upplýsingar fyrir pizzukeðjurnar, hvað þetta þýði, sem er hluthafafundur í íslenskum banka, hvað hann kýs á pizzurnar sínar.“
„Þarna kom stórt atkvæði“
Jóhannes Karl gat fylgst með niðurstöðunum þróast er atkvæðin skiluðu sér. Í eitt skipti vakti hann athygli á því að stórt atkvæði hafi komið en atkvæðavægið var mismunandi eftir eignarhluta, líkt og þegar kosið var í stjórnina. „Þarna kom stórt atkvæði, það þarf eitthvað að hjálpa beikoninu sýnist mér,“ sagði Jóhannes.
Það virðist þó engin hafa rétt beikoninu hjálparhönd því þegar niðurstöðurnar voru birtar mátti sjá að beikonið var í síðasta sæti. Skinka var í fyrsta sæti með 2,64 milljónir atkvæða en ananas var í öðru með 2,55 milljónir atkvæða. Pepperóní fylgdi fast á eftir með 2,45 milljónir atkvæða.

Það er spurning hvort hluthafar Íslandsbanka endurspegli það sem landsmenn vilja fá á pizzurnar sínar. Vísir ákvað að efna til könnunar með sömu valmöguleikum og hluthafar Íslandsbanka fengu á fundinum í dag.
Hægt er að taka þátt í könnuninni hér fyrir neðan.