Svíþjóð mætir ríkjandi meisturum Bandaríkjanna í 16-liða úrslitunum en Suður-Afríka á fyrir höndum leik við Holland, og eru báðir leikirnir á sunnudaginn.
Leikur Suður-Afríku og Ítalíu var frábær skemmtun, og þar sem Svíþjóð vann 2-0 gegn Argentínu var um úrslitaleik um sæti í útsláttarkeppninni að ræða, þar sem Ítölum dugði þó jafntefli.
Ótrúlegt sjálfsmark
Og útlitið var um tíma gott fyrir Ítalíu. Arianna Caruso kom liðinu yfir úr víti á 11. mínútu en staðan varð jöfn tuttugu mínútum síðar þegar Benedetta Orsi skoraði óhemju slysalegt sjálfsmark.
Orsi ætlaði, undir mjög lítilli pressu, að senda aftur á markvörð sinn en sú sending kom út eins og skot sem hafnaði í netinu.
Og Orsi leit heldur ekki vel út í vörninni þegar Suður-Afríka komst yfir á 67. mínútu, með marki Hildah Magaia. Caruso náði hins vegar að jafna metin skömmu síðar eftir hornspyrnu og þá var aftur útlit fyrir að Ítalía væri að fara upp úr riðlinum.
Sigurmark í uppbótartíma
Suður-Afríka tryggði sér hins vegar dramatískan sigur í uppbótartíma með marki Thembi Kgatlana, eftir sendingu Magaia og frábæra sókn liðsins. Þar með spilar Suður-Afríka í útsláttarkeppninni í fyrsta sinn í sögunni, en liðið er á sínu öðru heimsmeistaramóti.
Svíþjóð var tæknilega séð búin að vinna riðilinn fyrir leiki dagsins, en tryggði sér endanlega sigur með sigrinum á Argentínu. Rebecka Blomqvist og Elin Rubensson skoruðu mörkin fyrir Svía sem þrátt fyrir sína miklu velgengni í riðlinum þurfa að mæta Bandaríkjunum í 16-liða úrslitunum.