Upp­gjörið: Breiða­blik - Vestri 1-2 | Vestri tryggði sér síðasta far­seðilinn í 8-liða úr­slit

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Vestri gat fagnað í kvöld.
Vestri gat fagnað í kvöld. Vísir/Anton Brink

Breiðablik tók á móti Vestra á Kópavogsvelli í lokaleik 16-liða úrslita Mjólkurbikarsins í kvöld. Þar voru gestirnir frá Ísafirði sem tryggðu sér síðasta farseðilinn í 8-liða úrslitin með sterkum 1-2 sigri.

Leikurinn byrjaði eins og við var að búast þar sem Breiðablik hélt í boltann og pressaði vel á Vestra sem voru virkilega þéttir til baka. Aron Bjarnason komst nálægt því að koma Breiðablik yfir þegar hann átti gott skot sem small í þverslánni eftir korters leik. Breiðablik óheppnir að komast ekki yfir en þeir pressuðu stíft á fyrstu mínútum leiksins.

Það dró til tíðinda á 25. mínútu leiksins þegar Vestri tók forystuna. Vestri náði að koma boltanum inn á teig til Fatai Gbadamosi sem lyfti boltanum yfir Brynjar Atla í marki Breiðabliks en náði þó ekki miklum krafti í það og Blikar virtust vera að ná að bjarga af marklínu en Gunnar Jónas Hauksson hafði önnur áform og negldi boltanum í netið af tveggja metra færi til að koma Vestra yfir.

Breiðablik reyndi að finna opnanir á þéttri vörn Vestra sem fagnaði öllum tæklingum, hreinsunum og inngripum af alvöru ástríðu. Davíð Smári gríðarlega ánægður með sína menn á hliðarlínunni og mátti líka vel vera það. Vestri leiddi með einu marki gegn engu inn í hálfleikinn.

Breiðablik jafnaði leikinn á 52. mínútu leiksins en þá átti Aron Bjarnason flottan bolta fast niðri fyrir markið á Tobias Thomsen sem kom á ferðinni og lagði boltann í netið.

Það var ekki jafnt lengi því aðeins fjórum mínútum síðar fær Arnór Borg Guðjohnsen boltann úti hægri og á fullkomna sendingu fyrir markið í hlaup hjá Daða Berg Jónssyni sem kláraði færið af yfirvegun.

Breiðablik reyndi að sækja jöfnunarmarkið en þéttur varnarmúr Vestra kom í veg fyrir að þeir næðu því. Vestri hélt út og sló Breiðablik úr leik í Mjólkurbikar karla með flottum 1-2 sigri.

Atvik leiksins

Undir lok leiks fékk Breiðablik hörkufæri til þess að jafna leikinn þegar Ásgeir Helgi Orrason átti skalla sem Benjamin Schubert varði frábærlega í stöngina. Stuttu eftir það sparkar Vestri boltanum fram og Silas Songani er einn á móti Brynjari Atla í marki Blika sem gerir frábærlega að loka á hann og í þann mund fáum við lokaflautið.

Stjörnur og skúrkar

Daði Berg Jónsson var frábær hjá Vestra í kvöld. Skoraði sigurmarkið og lagði upp fyrra. Fatai Gbadamosi var einnig virkilega öflugur á miðjunni hjá Vestra ásamt varnarlínunni í heild sinni. 

Blikar voru svolítið á hælunum og áttu erfitt með að opna Vestra. 

Dómararnir

Sigurður Hjörtur Þrastarson hélt utan um flautuna í kvöld og honum til aðstoðar voru Patrik Freyr Guðmundsson og Bryngeir Valdimarsson. Heilt yfir fínasta frammistaða hjá teyminu að mínu viti en Blikar vildu meina að rangstaðan á Kristófer Inga þegar hann skorar hafi ekki verið rétt en erfitt að segja.

Stemingin og umgjörð

Það var flott veður, grillið stóð fyrir sínu og allt eins og við viljum hafa það. Blazroca mætti líka í stúkuna að styðja sína menn áfram.

Viðtöl

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra.

„Það vita allir um hvað Vestri er sem lið“

„Geggjuð tilfinning og bara heilt yfir verðskuldað að hafa unnið þennan leik í dag“ sagði Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra eftir sigurinn í kvöld.

„Vissulega eru Blikarnir aðeins meira en við á boltanum en við bara börðumst meira en þeir, vorum duglegri en þeir, vorum aggressívari en þeir og lögðum meira í leikinn en þeir og þá uppskerum við sigur“

„Ósáttur með að hafa ekki skorað fleirri mörk. Við hefðum geta klárað þennan leik fyrr. Heilt yfir þá er ég bara gríðarlega sáttur og svolítið af tilfinningum núna“

Það var aðdáunarvert að sjá ástríðuna í liði Vestra í kvöld en þeir fögnuðu hveri einustu tæklingu, hreinsun og baráttu í kvöld.

„Þegar við byrjum með þetta lið þá ákváðum við að búa til lið sem hefði eitthvað 'identity' og mér fannst liðið bara standa undir því í dag. Við vorum allir sammála því í dag hvað við ætluðum að gera sem lið og hvað við erum sem lið“

„Það vita allir um hvað Vestri er sem lið og um það snýst þetta bara. Það er aldrei neinn afsláttur af því. Við getum aldrei gefið neitt eftir hvað það varðar“

Vestri tryggði sér síðata farseðilinn í 8-liða úrslit en eru ekki með neinn óska móterja en væru til í heimaleik.

„Það er 'basicly' bara það. Okkur er alveg sama og bara áfram gakk“

Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks. vísir / PAWEL

„Eftir að þeir komast yfir þá drepa þeir leikinn“

„Vonbriði, bara mikil vonbrigði“ sagði Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks eftir tapið í kvöld.

„Við vorum drullu lélegir í fyrri hálfleik, við fáum einhver dauðafæri, sláarskot og eitthvað en vorum bara lélegir, soft og að tapa návígjum. Við vorum bara ekki nógu góðir“

„Mér fannst við bregðast vel í byrjun seinni og allt annað að sjá okkur. Við jöfnum leikinn snemma og þá eigum við að hafa stjórn á leiknum og klára hann. Þeir fá eina sókn og skora úr henni“

„Við vitum hvað þeir gera. Þeir setja boltann aftur fyrir á fljóta menn og frábærlega tímasett og drilluð hlaup. Þeir áttu aldrei að geta komist í þessa stöðu nema við værum að elta leikinn en þegar við erum búnir að jafna þá eigum við að vera með stjórn og ekki hleypa þeim eitt né neitt“

„Eftir að þeir komast yfir þá drepa þeir bara leikinn. Þá tjalda þeir bara við teiginn sinn og drepa og tefja leikinn sem er bara vel gert hjá þeim og eitthvað sem allir myndu gera. Við bara fundum ekki leiðina“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira