Ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur um að stöðva tímabundið hvalveiðar fram til fyrsta september hefur verið umdeild og hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks stigið fram og lýst yfir óánægju með ákvörðunina. Ákvörðun Svandísar var kynnt degi áður en vertíðin átti að hefjast í júní og var stuttur fyrirvari einnig gagnrýndur.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins sagði í fréttum okkar í gær að matvælaráðherra verði að gefa það út sem allra fyrst hvort bann við hvalveiðum haldi áfram þann fyrsta september.
„Ekki tímabært“
Þegar fréttamaður okkar, Helena Rós spurði ráðherra hvort hún væri búin að taka ákvörðun um framhaldið fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun sagði hún ekki tímabært að taka slíka ákvörðun.
Ertu búin að taka ákvörðun um hvort hvalveiðar hefjast á ný 1. september?
„Það er ekki tímabært,“ segir Svandís.
Hvenær munt þú taka ákvörðun? „Í tæka tíð.“
Verið sé að safna gögnum og upplýsingum á sama tíma og vinna starfshópa standi yfir.
Afstaða flokksins að banna ekki hvalveiðar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir hvalveiðibann Svandísar ekki hafa haft jákvæð áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið.
„Þetta mál hefur fyrst og fremst snúist um það að stjórnkerfið okkar verður að vera í þannig samskiptum við atvinnulífið í landinu að það sé eitthvað gagnsæi og fyrirsjáanleiki. Að ákvörðunartaka komi ekki í bakið á mönnum sem eru að hefja atvinnustarfsemi og það eru þau atriði sem við höfum einkum haft athugasemdir við. Við höfum síðan í þessu samtali okkar við aðra flokka í stjórninni komið því á framfæri, við gerðum það við stjórnarmyndun, að við værum ekki til viðtals um að fara að banna hvalveiðar í landinu og það er okkar afstaða.“