„Þegar hugmyndin að því að gera ábreiðu af laginu “Ég sé rautt” með Unun kom upp þá lá svo beint við að heyra í hæfileikabúntinu Diljá til þess að ljá klassíska rokklaginu rödd sína,“ segir Valgeir Skorri Vernharðsson, hljómsveitameðlimur og eitt þriggja systkinanna í Celebs. En hin eru Hrafnkell Hugi og Katla Vigdís.
Líkt og flestir muna eftir keppti Celebs í Söngvakeppni Sjónvarpsins í vetur með laginu „Doomsday Dancing“, eða „Dómsdags dans.“ Dilja vann keppnina og keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision í Liverpool borg. Djúp vinátta myndaðist á milli keppendanna sem skilar sér meðal annars í þessu samstarfi.
„Ég er mjög spenntur fyrir því hvernig fólk mun taka í þetta lag því mér finnst það hafa heppnast mjög vel,“ segir Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem doktor Gunni, höfundur upprunalega lagsins með Unun.
„Ég sé rautt“ verður notað í Vodafone auglýsingu sem kom út í dag en þar er partýskrímslið í aðalhlutverki. Sú skepna var sköpuð fyrir Söngvakeppnina, hönnuð af búningahönnuðinum Tönju Levý í samstarfi við Alexíu Rós Gylfadóttur og Örnu Björg Steinarsdóttur. Partýskrímslið er í raun boðskapur Celebs í hnotskurn; það er allt í lagi að vera smá öðruvísi, það má bara aldrei gleyma að vera forvitinn og hafa það gaman.
Vísir er í eigu Sýnar.