Lífið

Ást­fangnar í fjöru­tíu ár

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Jóhanna og Jónína kynntust árið 1984 á Höfn í Hornarfirði.
Jóhanna og Jónína kynntust árið 1984 á Höfn í Hornarfirði.

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og fyrsti opinberlega samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims, og eiginkona hennar, Jónína Leósdóttir rithöfundur, fagna fjörutíu ára sambandsafmæli sínu í dag. 

Jóhanna og Jónína höfðu hvorugar átt í ástarsambandi við konu áður en þær kynntust árið 1985. Árið 2010 gengu þær í hjónaband, sama ár og ný hjúskaparlög tóku gildi á Íslandi. Þá var Jóhanna forsætisráðherra og þær Jónína þar með fyrstu samkynhneigðu forsætisráðherrahjón heims.

Í tilefni tímamótanna skrifaði Jónína einlæga færslu á Facebook um samband þeirra hjóna.

„Í dag eru fjörutíu ár frá fremur vandræðalegu samtali, á Höfn í Hornafirði, sem markaði upphaf samband okkar Jóhönnu. Eftir þá örlagaríku kvöldstund tóku við fimmtán flókin ár í felum en loks langþráð sambúð frá aldamótum á mun lygnari sjó, þótt forsætisráðherratíð Jóhönnu eftir bankahrunið hafi nú ekki verið neinn dans á rósum. En lífið er bland í poka og við erum þakklátar fyrir allt það góða sem við höfum fengið að njóta á þessum fjórum áratugum,“ skrifar Jónína við færsluna. 

Fyrsti samkynhneigði þjóðarleiðtogi heims

Árið 2013 gaf Jónína út bókina, Við Jóhanna, sem segir frá þrjátíu ára sambandi hennar og Jóhönnu. Fyrir það höfðu þær haldið sambandi þeirra utan sviðsljóssins.

„Við höfum alla tíð lagt kapp á að halda einkalífinu út af fyrir okkur en nú finnst okkur kominn tími til að opinbera þessa óvenjulegu sögu sem spannar tæpa þrjá áratugi,“ sagði Jónína í tilkynningu frá Máli og menningu sem gaf bókina út sama ár.

Jóhanna og Jónína eiga samtals þrjá syni úr fyrri samböndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.