Forsvarsmenn Seðlabanka Íslands hækkuðu stýrivexti í gær um hálft prósent og eru þeir nú 9,25 prósent. Stýrivextir hafa hækkað fjórtán sinnum í röð en Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna segir hækkunina í gær þó hafa komið á óvart.
„Við erum að sjá það að verðbólgan er að fara niður og spennan er vegna ákveðinna atvinnugreina. Það hefði verið hægt að nota önnur tól og tæki frekar en endalausar stýrivaxtahækkanir til að ná niður verðbólgunni.“
Eins og hvað, hvaða leiðir sérð þú?
„Ef það er rétt sem Seðlabankinn heldur fram, að þetta sé vegna þess að ferðaþjónusta sé í einhverri yfirspennu þá þarf að ráðast að henni með gjaldtöku eða einhverjum takmörkunum svo spennan verð ekki of mikil þar. Ekki þannig að við neytendur þurfum að bera þær byrðar nánast ein og sér.“
Dæmi um fólk á „besta aldri“ í skuldavanda vegna smálána
Breki segir hækkunina koma harðast niður á þeim sem síst skyldi, og að nýr hópur leiti nú í síauknum mæli til Neytendasamtakanna.
„Það er hópur fólks á besta aldri, á aldrinum 60 til 70 ára. Fólk sem á eignir en hefur komið sér í miklar skammtímaskuldir vegna þess að það er að reyna brúa bilið. Það nær ekki að borga af lánunum sínum og tekur smálán til þess að brúa það bil,“ segir Breki. Smám saman fari boltinn að rúlla og mjög erfitt geti reynst að vinda ofan af vandanum.
„Þetta eru allt upp í átta milljóna króna smálánaskuldir sem fólk hefur safnað hjá hinum ýmsu fyrirtækjum og er í verulegum vanda. Það sér jafnvel fram á að þurfa selja ofan af sér og fara á leigumarkað.“
Hann hvetur fólk til að leita sér aðstoðar fyrr en síðar.
„Ekki bíða ef þú telur að þú þurfir á hjálp að halda. Það er hægt að leita til okkar hjá Neytendasamtökunum, Umboðsmanns skuldara eða annarra samtaka sem hjálpa fólki í vandræðum,“ segir Breki Karlsson, formaður neytendasamtakanna.“