Åge er ánægður með að nú virðist ætla stefna í að Gylfi Þór snúi aftur í atvinnumennsku en búist er við því að hann skrifi undir eins árs samning við danska úrvalsdeildarfélagið Lyngby í dag.
Norðmaðurinn segist munu fylgjast náið með þróuninni hjá Gylfa næstu mánuðina.
„Hann mun þurfa tíma,“ sagði Åge á blaðamannafundi um þróunina hjá Gylfa. „Ég veit að hann hefur verið að glíma við smávægileg meiðsli. En hann byrjar að spila reglulega fyrir Lyngby þa mun ég fylgjast vel með honum.
Åge er ánægður með þetta verðandi skref Gylfa.
„Ég er mjög ánægður með þessi skipti. Hjá Lyngby mun hann spila undir stjórn góðs þjálfara, Freys Alexanderssonar. Hæfileikar Gylfa inn á knattspyrnuvellinum eru ótvíræðir ég mun fylgjast náið með honum.“

Gylfi hefur verið án félags síðan samningur hans við enska úrvalsdeildarfélagið Everton rann út sumarið 2022. Hann hefur ekki spilað fótboltaleik síðan í maí 2021 en hann var handtekinn síðar það sumar vegna gruns um brot gegn ólögráða einstaklingi.
Í apríl síðastliðnum lýsti lögreglan í Manchester því hins vegar yfir að sönnunargögn „næðu ekki þeim þröskuldi sem fellur að reglum saksóknara krúnunnar“, og var Gylfi þar með laus allra mála.
Lyngby er í 9. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir sex leiki. Næsti leikur liðsins er gegn Nordsjælland á sunnudaginn.