Samkvæmt norska viðskiptatímaritinu Kapital eru auðæfi Haalands metin á 1,8 milljarða norskra króna. Það gera tæplega 23 milljarða íslenskra króna. Um er að ræða laun lögð saman við bónusa og styrktarsamninga.
Þrátt fyrir þetta er Haaland „aðeins“ 240. ríkasti maður Noregs. Þetta er í fyrsta sinn sem hann er í hópi fjögur hundruð ríkustu manna Noregs. John Fredriksen er ríkasti maður Noregs. Eigandi Molde, Kjell Inge Rökke, er í 7. sæti á listanum yfir ríkustu Norðmennina.
Haaland gekk í raðir City frá Borussia Dortmund í fyrra. Hann skoraði 52 mörk í 53 leikjum í öllum keppnum á síðasta tímabili þar sem City vann þrefalt. Haaland þykir líklegastur til vinna Gullboltann ásamt argentínska snillingnum Lionel Messi.
Á þessu tímabili hefur Haaland skorað sjö mörk í átta leikjum. Hann lagði upp eitt mark þegar City sigraði Rauðu stjörnuna, 3-1, í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn.