En alveg týpískt: Ég var of sein að sækja um og lét mig því hafa það að fara í viðskiptafræðina. Og ákvað að gerast bankakona.
Þá þurfti ég auðvitað að vita allt um fjármálaheiminn og ákvað því að bæta við mig löggilta verðbréfamiðlun.
Vita gagnlaus menntun eftir hrun!“
Það er alltaf stutt í hláturinn og gleðina í samtalinu við Sæunni, sem síðastliðið vor fékk ótrúlega spennandi starfstilboð hjá alþjóðlega fyrirtækinu Wolt í gegnum LinkedIn, sem frá því í maí síðastliðnum hefur margfaldast í rekstri.
Með því að panta vörur í gegnum Wolt fá neytendur vörurnar sendar heim að dyrum og því getur Wolt oft séð um að dekka þau kaup sem til dæmis fólk gleymir þegar það er í búðinni og man ekki eftir fyrr en eftir að það er komið heim. Eða til að panta sér mat frá veitingastöðum.
Sjálf er Sæunn vegan sem margir þekkja úr því samfélagi. Starfsferillinn hennar hófst þó í snyrtifræðinni og ekki úr vegi að kynnast því í dag, hvernig eitt leiddi af öðru þannig að í dag starfar hún hjá alþjóðlegu fyrirtæki með starfsemi í 29 löndum.
Ætlaði að verða rík
Sæunn fór ung í sambúð og aðeins 21 árs var hún orðin þriggja barna móðir.
„Þetta eru þrjú og hálft ár,“ útskýrir hún þó því börnin hennar eru fædd tímabilið 1998-2001.
Sæunn er viðskiptafræðingur með löggildingu í verðbréfamiðlun, meistarapróf í alþjóðaviðskiptum og er sem stendur í meistaranámi í stjórnun og leiðtogafræðum. Samhliða því að vera rekstrarstjóri Wolt á Íslandi.
Sem Sæunn segir bjóða upp á byltingarkennda þjónustu fyrir Íslendinga sem vilja versla á netinu og fá vörurnar sendar heim.
„Wolt var stofnað árið 2014 í Finnlandi en er nú starfandi í 29 löndum,“ útskýrir Sæunn stolt.
Hún segir vöruúrvalið enn sem komið er, nokkuð ólíkt á Íslandi miðað við til dæmis Helsinki. Þar sem vörur eins og sleipiefni eða kattasandur eru meðal algengustu sérvaranna í heimsendingum. Að sögn Sæunnar hefur reynslan frá öðrum löndum þó sýnt að það taki tíma fyrir slíkar „jaðarvörur“ að bætast við úrvalið og fyrir fólk að kveikja á þjónustumöguleikum Wolt.
En hvernig kom það til að þú byrjaðir í snyrtifræðinni?
„Við vorum með lítil börn og mig einfaldlega vantaði tekjur. Ég fór því að selja snyrtivörur í heimakynningum og á það svolítið til að fá mikla áráttu fyrir öllu því sem ég er að fást við hverju sinni. Skellti mér í förðunarskóla og varð förðunarfræðingur en uppgötvaði fljótt að ég þyrfti að fara í snyrtifræðinginn því konur voru oft að spyrja mig um hvaða krem þær ættu að nota og svona. Og auðvitað þurfti ég þá að læra allt um það,“ segir Sæunn og hlær.
Um tíma rak Sæunn snyrtistofu.
„Þar komst ég að því að mér fannst í rauninni miklu skemmtilegra að hugsa um reksturinn en að veita þjónustuna,“ segir Sæunn, sem þó var ekki skýringin á því að hún fór í viðskiptafræðina síðar.
„Nei ég hafði aldrei neitt áhuga á viðskiptafræðinni og fannst hún reyndar frekar hallærislegt nám að fara í. Um tíma hafði ég velt fyrir mér læknanámið en þegar ég var of sein að sækja um lögfræðina ákvað ég að láta mig hafa það að fara í viðskiptafræði.“
Sæunn er tæplega þrítug þegar þetta er og allt á fleygiferð í þjóðfélaginu.
Viðskiptafræðin gekk vel og þar sem ég ákvað að gerast bankakona lá það beinast við að fara líka í löggildinguna í verðbréfamiðlun.
Eftir á að hyggja held ég að ég hafi líka bara ætlað mér að verða kapítalisti. Meira að segja villtist óvart inn í Sjálfstæðisflokkinn um tíma og get ekkert annað gert en að biðjast bara afsökunar á því,“
segir Sæunn og hlær.
Eftir útskrift var staðan gjörbreytt í þjóðfélaginu, enda búsáhaldabyltingunni nýlokið og mörg heimili og fyrirtækjum í sárum eftir bankahrun.
„En þá hugsaði ég bara með mér: Æi, best að skella sér þá bara beint í meistaranámið. Svona rétt á meðan bankarnir eru að rétta úr kútnum….“

Fyrsta stóra tækifærið
Þegar leið að útskrift sótti Sæunn um starf hjá öllum bönkunum.
„En fékk frá þeim öllum kurteisislega synjun,“ segir Sæunn og hlær.
Í hálfgerðum hálfkæringi sótti ég þá um innkaupastjórastarf hjá Samkaupum og fékk það starf.
Ég held ég hafi meira að segja talið að þar gæti ég drepið tímann þar til bankarnir væru komnir betur á legg.
En sem betur fer, fékk ég aldrei vinnu í banka því þar hefði ég verið á kolvitlausri hillu og satt best að segja er ég fegin því að hafa sloppið við þá reynslu eftir allt saman.“
Hjá Samkaupum var Sæunn í sex ár sem hún segir hafa verið frábæran tíma.
„Ég fékk mikið frelsi í starfinu og var treyst fyrir því sem ég sá um. Þetta traust skilaði mér mikilli reynslu því ég gat oft prófað alls konar innkaup og ævintýri sem ég síðan lærði mikið af. En viðhorfið þarna var einfaldlega þetta: Ef ég keypti heilan gám af einhverjum vörum, snerist málið ekkert um það hvað gámurinn kostaði, heldur bara það að ég seldi vörurnar. Sem ég og gerði.“
Sæunn segir árin í Samkaup hafi verið ótrúlega dýrmætan tíma. Að starfa hjá stöndugu fyrirtæki, hafa frelsi til að læra, byggja upp, búa til nýjungar og prófa sig áfram. Þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af rekstrinum eða peningum.
„Fyrstu þrjú árin var ég með sérvörurnar fyrir Nettó og fleiri verslanir en síðari þrjú árin var ég aðallega með heilsuvörurnar. Tók til dæmis þátt í að þróa heilsu- og lífstílsdagana í Nettó og sambærileg konsept. Á þessum tíma fór ég að flytja inn veganvörur, lífrænar vörur og ýmsar heilsuvörur. Og það verður einfaldlega að segjast að salan á þessum vörum gekk ævintýralega vel.“
Sjálf dembdi Sæunn sér í veganismann og gerðist um tíma talskona Samtaka grænmetisæta á Íslandi.
„Ég tók þátt í að stofna þessi grænkerasamtök og sem talsmaður var það líka lærdómsríkt að ég sat beggja megin borðsins: Starfaði við innflutning og sölu á ýmsum vörum en var sem einstaklingur að tala fyrir veganisma.“
Í fjölmiðlum fór andlit Sæunnar að birtast reglulega. Til að mynda gaf hún lesendum góð ráð í heilsu og lífstíl með breyttu matarræði árið 2017.
Eftir sex ár hjá Samkaupum ákvað Sæunn að segja upp og réði sig í framhaldinu sem markaðs- og sölustjóra hjá Gló. Það var árið 2016.
„Á þessum tíma var Gló á fjórum stöðum og Solla og Elli að búa sig undir að ráða inn framkvæmdastjóra og að færa sig svolítið til Danmerkur í Gló útrás. Þetta var mikill breytingatími og það verður bara að segjast að ég elska svoleiðis vesen,“ segir Sæunn og skellihlær.
„Fljótlega færðist ég yfir í rekstrarstjórastarf því ég var að leysa aðra konu af í fæðingarorlofi. Í því starfi má segja að síðasta verkefnið mitt hafi verið að skipuleggja sjálfa mig úr starfi hjá Gló, því verkefnið fólst meðal annars í að loka litlu búðinni sem var í Faxafeni. En þetta var skemmtilegur tími og ævintýralegur að mörgu leyti því að við prófuðum alls kyns nýjar leiðir í markaðssetningu og fleira.“

Alls konar ævintýri
Þegar Sæunn sagði upp hjá Samkaupum, sagði hún upp án þess að vera búin að fá annað starf.
Fannst þér ekki öruggara að tryggja þér nýtt starf fyrst og segja síðan upp?
„Æi nei,“ svarar Sæunn og brosir.
„Ég held ég geti einhvern veginn ekki gert þetta þannig. Að vera í starfi en að leita mér að öðru er eins og að leika tveimur skjöldum. Þegar að ég hætti hjá Gló ákvað ég því að gera bara það sama og áður: Að treysta því að eitthvað gott kæmi til mín.“
Sæunn viðurkennir þó að þarna spili líka inn í að hún hafi verið í sambúð og það sé visst öryggisnet. Magnús Reyr Agnarson fyrrverandi eiginmaður Sæunnar, var á þessum tíma kominn með umboð fyrir Oumph! veganvörunum og Sæunn ákvað að demba sér í það verkefni að sjá um þær.
„Magnús hafði meira og minna verið að sinna Oumph! á kvöldin og um helgar, samhliða annarri vinnu. Ég tók við þeirri umsýslu og innan skamms var ég búin að bæta við ýmsum vörum,“ segir Sæunn og bætir við:
„Þetta endaði eiginlega með að fara úr böndunum, viðtökurnar voru brjálæðislegar að vissu leyti. Ekki síst í kjölfar þess að sumarið 2018 ákváðum við að vera með á götubitamarkaði í Skeifunni og gefa fólki Oumph! vörur að smakka. Þetta var í rauninni nýstárleg leið til að markaðssetja vöruna og aðrar sem við vorum komnar með.“
Sjálf þekkti Sæunn hversu vel kynningar í búðum geta virkað, en hana óraði þó ekki fyrir þeim viðtökum sem urðu við götubitamarkaðinum. Eða hugmyndunum sem urðu að veruleika.
„Við ætluðum að gefa fólki bita að smakka og þá hugsaði ég með mér : Er ekki allt eins gott að búa til einhverja sósu með. Og síðar í fleirtölu: Einhverjar sósur með. Síðan fórum við að bjóða upp á hamborgara líka og þá hugsuðum við: Er ekki allt eins gott að vera með matseðil fyrst við erum komin með allt þetta…..,“ segir Sæunn og er mikið skemmt.
Fyrr en varði var vörumerkið Jömm orðið til: Sósur, salöt, samlokur og fleira.
Opin fyrir nýjum tækifærum
Til viðbótar við Jömm ráku hjónin, í samvinnu við Rósa María Hansen og Benjamin Lestagem Veganbúðina sem staðsett var í gamla Bónushúsnæðinu í Faxafeni.
„Þar var allt til alls þegar við gengum inn í húsnæðið. Hillurnar voru þar enn þá og kassarnir. Við gátum auðveldlega sett upp framleiðslueldhúsið okkar þarna og veglega veganverslun samhliða.“
Á þessu ári birtust fréttir um það í fjölmiðlum að Veganbúðinni yrði lokað sökum hás leiguverðs.
Um miðjan mars var Sæunn að ganga í gegnum þau tímamót að skilja við Magnús.
„Það voru þó engin áform um breytingar tengt rekstrinum eða vinnunni okkar en ég man að þegar að við mættum til sýslumanns til að skrifa undir skilnað á borði og sæng, hugsaði ég með mér að nú væri tilvalinn tími til að vera opin fyrir nýjum tækifærum, bærust þau til mín.“
Og viti menn:
Daginn eftir fékk hún spennandi skilaboð í gegnum LinkedIn frá konu sem hafði áhuga á að ræða við hana um starf hjá Wolt í tilefni þess að fyrirtækið væri að opna á Íslandi.
„Mér fannst meira að segja frekar skrýtið að vera að fá þessi skilaboð á LinkedIn því ég var ekki einu sinni virk þar, þótt ég hafi svo sem passað upp á að uppfæra prófílinn minn og svona.“
Tveir dagar liðu áður en Sæunn svaraði skilaboðunum.
„Því þá mundi ég allt í einu eftir því að ég hefði lofað sjálfri mér að vera opin fyrir nýjum tækifærum!“
Á næstu vikum gerðist margt: Sæunn endaði með að fara í fimm atvinnuviðtöl og að þurfa að leysa úr verkefni fyrir fyrirtækið.
Starfsemi Wolt felst í því að tengja saman þrjá aðila: Kaupandann, seljandann og sendilinn.
„Þú getur keypt þér mat á veitingastað, sem appið sér um að panta fyrir þig og eins að finna sendil sem tryggir að matnum verði komin heim til þín innan tilskilins tíma. Starfið mitt felst meðal annars í því að passa upp á að allir sendlarnir okkar séu óskaplega hamingjusamir og sjái hag sinn í að vera skráðir online, svo við séum alltaf með fólk til að sjá um heimsendingarþjónustuna. Verslanir og veitingastaðir sjá um að afhenda vörurnar en kaupandinn gerir þetta allt í gegnum Wolt og gengur frá greiðslu. Við sjáum um rest.“
Sæunn segir viðtökurnar framar björtustu vonum.
„Við varla náum að anna eftirspurn og sem dæmi má nefna er þjónustuverið okkar rekið frá Osló. Þar höfum við fengið hóp af íslenskum námsmönnum til að sjá um að svara skilaboðum og liðsinna viðskiptavinum, söluaðilum og sendlum eftir því sem við á. Wolt er á mjög mörgum stöðum í Noregi en eftirspurnin á Íslandi er þó þannig að þar erum við strax orðin þriðja stærsta ,,borgin“ ef tekinn er samanburður við aðra staði þar.“

Og hvernig er í nýju vinnunni?
„Ég vakna upp alveg skelfingu lostinn á hverjum morgni!“ svarar Sæunn og í þetta sinn springur hún úr hlátri.
„Ekki aðeins er ég komin inn í tækniveröld þar sem allt snýst í raun um það sem gerist í appinu. Heldur er ég endalaust að hugsa: Verður hellidemba í dag og munu öll panta sér sushi á sama tíma og þá akkúrat þegar það eru eiginlega engir sendlar online og jafnvel vegaframkvæmdir sem seinka umferð akkúrat á öllum heimsendingarþjónustuleiðum…..og svo framvegis.“
Að sjálfsögðu er þetta samlíking í gríni sagt, því Sæunn viðurkennir að enn einu sinni er hún byrjuð í starfi sem hún er hugfangin af.
Og hugsar um það vakandi og sofandi. Eins og verið hefur með fyrri störf.
Sæunn segist enn mikill talsmaður veganisma og upplifir starfsferilinn sinn þannig að síðustu tíu árin hafi flest sem hún hafi tekið sér fyrir hendi snúið að því að auka aðgengi að veganvörum hér á landi, að berjast fyrir auknu réttlæti handa fólki, dýrum og umhverfi; allt eitthvað sem að hennar mati sameinast í veganismanum að hennar mati.
Að starfa nú fyrir stórt alþjóðlegt fyrirtæki eins og Wolt, segir hún líka frábæran reynsluheim að kynnast. Þar sé hún líka að stökkva inn í heim tækninnar, sem sé spennandi heimur út af fyrir sig. Ekki síst fyrir konur.
Aðspurð um nálgun Wolt að henni í gegnum LinkedIn segir Sæunn:
„Þetta er þau sem þeir eru að gera um allan heim. Að finna hæfileikaríkt fólk í gegnum LinkedIn á nýjum mörkuðum. Þau eru með heila deild bara í þessu,“ en þess má geta að fyrir helgi sagði Atvinnulífið frá því að erlendis telst LinkedIn vera aðalmiðillinn í ráðningum, en þó með auglýsingatækjum og tólum sem enn bjóðast ekki fyrir íslenskan markað.
Lítandi til baka held ég nú samt að starfsferillinn minn einkennist af röð hvatvísra ákvarðana sem verða óvart að einhverju, frekar en ákvörðunum sem ég hef tekið að vel ígrunduðu máli.“