Breska ríkisútvarpið greinir frá málinu. Þar kemur fram að sölutölur fyrirtækisins hafi tekið dýfu og fallið um tuttugu prósent í júlí mánuði og fram í september. Segja forsvarsmenn fyrirtækisins minnkandi eftirspurn eftir 5G búnaði í Bandaríkjunum um að kenna.
Fyrirtækið var eitt sinn stærsti farsímaframleiðandi í heimi en tekjur þess skruppu saman eftir að snjallsímar úr smiðju Apple og Samsung ruddu sér til rúms á markaðnum. Snjallsímar Nokia náðu aldrei sömu vinsældum og var farsímaframleiðsla þess seld til bandaríska tæknifyrirtækisins Microsoft.
Undanfarin ár hefur fyrirtækið því einbeitt sér að framleiðslu á fjarskiptabúnaði. Breska ríkisútvarpið lætur þess getið að Nokia hafi grætt vel á því árið 2020 þegar bresk og bandarísk stjórnvöld hættu viðskiptum við kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei af öryggisástæðum.
Haft er eftir forstjóra fyrirtækisins, Pekka Lundmark, að fyrirtækið vonist til þess að koma í veg fyrir frekara tap með þessum aðgerum. Ákvörðunin hafi verið gríðarlega erfið en nauðsynleg til að tryggja rekstur fyrirtækisins.