„Ég veit að það er langt í að jafnrétti verði raunverulegt á Íslandi, hvað þá í heiminum. En að vel meinandi karlar sem langar til að leggja sitt af mörkum standist ekki freistinguna um að láta kvennaverkfallið snúast um sig er beinlínis bakslag,“ skrifar Sóley á Facebooksíðu sína.
Haraldur kom fram með þá hugmynd að kalla til „vanhæfa gestaþjóna“ til að þjóna á stað hans Önnu Jónu í tilefni af kvennaverkfallinu. Og voru nokkrir frægir sem mynstruðu sig á þjónalista svo sem þeir Ari Eldjárn, Sigurður Guðmundsson, Unnsteinn Manuel, Sigtryggur Baldursson, Bragi Valdimar, Haraldur Þorleifsson, Einar Örn, Gunnar Hansson, Jón Gnarr og Högni Egilsson.
Jón Ólafsson tónlistarmaður var einnig á lista en hann mynstraði sig af skipinu og bar fyrir sig því að hann ætti svo mörg börn og þyrfti að sinna þeim.
Jón sleppur þó ekki undan reiði Sóleyjar.
„Og enn verri er tilhugsunin um að þeim verði hampað fyrir að hætta við og vera gaurarnir sem eru svo góðir í að taka gagnrýni.“
Þannig eru þeir sem hafa verið kynntir sem „vanhæfir gestaþjónar“ í stöðu sem er vandséð hvernig hægt sé að snúa sig út úr.
„Kvennaverkfall 24. október 2023 snýst ekki um karla,“ skrifar Sóley og gefur ekki þumlung eftir. „Það snýst um uppreisn kvenna gegn kerfislægu misrétti. Kvenna sem hafa hvorki áhuga á friðþægingaraflslætti í tilefni dagsins né því að baráttan þeirra snúist uppí að hæpa einhverja gúddí gæja.“
Og Sóley lýkur ádrepu sinni með eftirfarandi hætti: „Plís, elsku vinir. Látið þennan dag í friði.“