Fyrr í kvöld hafði Keflavík tryggt sér sæti í undanúrslitum með stórsigri á Haukum. Í gær höfðu svo bæði Grindavík og Þór Akureyri tryggt sér farseðilinn í Laugardalshöllina. Í kvöld var komið að Njarðvík sem lagði grunninn að sigrinum með frábærri spilamennsku í öðrum leikhluta eftir að allt hafði verið í járnum í upphafi leiks.
Annar leikhluti fór þannig að Njarðvík skoraði 33 stig gegn aðeins 15 hjá gestunum. Þann mun náði liðið frá Suðurlandi aldrei að vinna upp og fór það svo að Njarðvík vann tuttugu stiga sigur, 92-72.
Selena Lott var stigahæst hjá Njarðvík með 22 stig. Þar á eftir kom Jana Falsdóttir með 17 stig og Emilie Hesseldal með 16 stig en hún tók einnig 13 fráköst. Hjá gestunum var Aniya Thomas stigahæst með 28 stig.